Innlent

Aukin hætta með gjaldi í Silfru

Gjaldkeri Sportkafarafélagsins skoðar sig um í Silfru.
Gjaldkeri Sportkafarafélagsins skoðar sig um í Silfru. Mynd/Úr Einkasafni
„Gjaldtaka í Silfru breytir engu um öryggi og eykur það ekki, heldur þvert á móti getur stuðlað að því að rekstraraðilar fari að spara við sig starfsmenn og auki þar með hættu á slysum frekar en að draga úr henni,“ segir Anna María Einarsdóttir, gjaldkeri Sportkafarafélags Íslands.

Anna bendir á að ekki aðeins rekstraraðilar við Silfru eigi að greiða 750 krónur fyrir hvern gest. „Þingvallanefnd ætlar að vanhugsuðu máli að rukka alla kafara sem fara í Silfru um gjaldið, óháð því hvort um er að ræða einstaklinga á eigin vegum eða kafara sem keypt hafa þjónustu og leiðsögn af rekstraraðilum sem selja slíkar ferðir,“ segir Anna sem kveður sportkafara telja þetta brjóta í bága við jafnræðisregluna því aðrir ferðamenn séu ekki rukkaðir um gestagjöld.

Anna kveður Sportkafarafélagið hafa vakið máls á því að breyta þurfi lögum og reglum um atvinnuköfun því núverandi reglur nái aðeins til svokallaðrar iðnaðarköfunar. „Öryggismál kafara eru því að mati Sportkafarafélags Íslands fyrirsláttur formanns Þingvallanefndar enda heyra málefni köfunar ekki undir nefndina heldur Siglingastofnun,“ segir hún.

„Látum eitt yfir alla ganga og tökum bara upp almennan aðgangseyri að þjóðgarðinum. Það er eina réttlætið og þá taka allir þátt í uppbyggingunni, ekki bara sumir,“ segir Anna. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×