Innlent

Tugir mála á leið til sérstaks saksóknara

Fjármálaeftirlitinu þá skilar embætti skattrannsóknarstjóra fullunninni sakamálarannsókn til sérstaks saksóknara. Skattarannsóknarstjóri hefur hins vegar ekki ákæruvald og því þarf sérstakur saksóknari að sjá um þann hluta málsmeðferðarinnar.
Fjármálaeftirlitinu þá skilar embætti skattrannsóknarstjóra fullunninni sakamálarannsókn til sérstaks saksóknara. Skattarannsóknarstjóri hefur hins vegar ekki ákæruvald og því þarf sérstakur saksóknari að sjá um þann hluta málsmeðferðarinnar. fréttablaðið/valli
Skattrannsóknarstjóri hefur sent 66 mál til sérstaks saksóknara og tugir til viðbótar eru á leiðinni. Sakfelling hefur fengist í öllum málum sem lokið hefur með dómi. Stærstu málin sem rannsökuð eru snúast um milljarða undandrátt.

Embætti sérstaks saksóknara hefur fengið til sín alls 66 mál frá skattrannsóknarstjóra frá því að embættið var sett á fót og tugir mála til viðbótar eru á leið þangað. Rannsókn er þegar lokið í 27 málanna. Í fjórum tilfellum varð niðurstaðan sú að ákæra ekki en í 23 þeirra hefur verið gefin út ákæra. Af þeim málum er þegar komin niðurstaða í ellefu. Samkvæmt Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, var sakfellt í þeim öllum.

Hann segir málin oft vera mjög vel unnin af skattrannsóknarstjóra þegar þau berist inn á borð síns embættis. Þau séu auk þess flest ekki mjög flókin og því sé hægt að afgreiða þau með nokkuð miklum hraða. „Fjöldi þeirra er enn í rannsókn og það er ágætis gangur á þeim rannsóknum.“

Af þeim ellefu málum sem þegar hefur verið sakfellt í var þyngsta refsingin sem ákvörðuð hefur verið tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og 100 milljóna króna sekt fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum. Sá dómur, sem var yfir fyrrum framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins A&V ehf. sem nú er gjaldþrota, féll í janúar síðastliðnum. Allar sektargreiðslur vegna skattalagabrota renna í ríkissjóð.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að embætti sitt muni senda tugi mála til viðbótar á allra næstu vikum til sérstaks saksóknara. „Ég myndi ætla að þetta væru um 50 mál á næstu vikum. Þau eru allt frá því að vera nokkurra milljóna króna undandráttur og upp í hundruð milljóna króna. Í einhverjum málum sem ég sé fyrir mér að fari héðan innan tíðar er undandrátturinn talinn í milljörðum.“

Sum málannna eru búin að vera lengi í rannsókn hjá embætti skattrannsóknarstjóra. Bryndís segir þau geta verið eitt til tvö ár í rannsókn eftir umfangi. „Hér fer fram sakamálarannsókn í samræmi við lög um meðferð sakamála. Við erum ekki eins og til dæmis Fjármálaeftirlitið sem vísar málum til frekari rannsókna. Þau koma tilbúin frá okkur.“

Aðkoma sérstaks saksóknara að skattalagabrotamálum er því í flestum tilfellum einungis sú að taka afstöðu til þess hvort ákært verði í málunum eða ekki. Eins og kemur fram að ofan þá er niðurstaða embættisins oftast sú að ákæra í málunum.

thordur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×