Innlent

Segjast hafa lokað á sölu fisks frá Granda

Fullyrt er að fiskmeti frá HB Granda verði ekki selt á svæðum sem falla undir bresku Ólympíunefndina.
Fullyrt er að fiskmeti frá HB Granda verði ekki selt á svæðum sem falla undir bresku Ólympíunefndina. nordicphotos/afp
Hvalfriðunarsamtök fullyrða að þau hafi komið í veg fyrir sölu á fiski frá HB Granda á Ólympíuleikunum í London í sumar. Forsvarsmenn HB Granda koma af fjöllum. Samtökin hafa lengi barist gegn Granda vegna tengsla við Hval hf.

„Ég hef ekkert heyrt um þetta mál og sannast sagna hljómar þetta eins og áróður,“ segir Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda, um fullyrðingar hvalfriðunarsamtaka um að þeim hafi tekist að útiloka sölu á sjávarfangi frá fyrirtækinu á Ólympíuleikunum í London í sumar.

Hvalfriðunarsamtökin Whale and Dolphin Conservation Society (WDCS) halda því fram á heimasíðu sinni að fyrir þeirra tilstilli muni enginn fiskur frá HB Granda verða seldur til íþróttafólks, starfsmanna, eða áhorfenda á Ólympíuleikunum.

Samtökin byggja undir tíðindin með því að greina frá því að David Stubbs, sem fer fyrir sjálfbærniverkefni leikanna, hafi staðfest þetta. Fréttaveitan Fishnewseu.com fjallaði jafnframt um málið í gær.

Svavar segir að fiskur frá HB Granda fari mikið til á „fish&chips-markaðinn“ (fiskur og franskar), í Bretlandi. Sölustaðir fyrir þennan rétt í London séu um tíu þúsund talsins og margir hverjir smáir sjálfstæðir atvinnurekendur. „Þetta finnst mér frekar langsótt, satt best að segja,“ segir Svavar.

WDCS hafa unnið markvisst gegn HB Granda í Bretlandi um árabil. Ástæðan er tengsl fyrirtækisins við Hval hf. sem er stærsti einstaki hluthafinn í HB Granda með fjörutíu prósent hlutafjár í gegnum dótturfyrirtæki sitt Vogun. Svavar segir að þrátt fyrir starf WDCS hafi það ekki haft merkjanleg áhrif á sölu á fiskmeti frá fyrirtækinu í Bretlandi.

Síðast náðu WDCS eyrum almennings í herferð sem var sérstaklega beint til sölumanna fisks og franska í september síðastliðnum. Yfirlýst markmið samtakanna er að höggva skörð í útflutning HB Granda til landsins og þrýsta með því á að hvalveiðum verði alfarið hætt. Þá bentu Grandamenn á að eignartengsl HB Granda og Hvals hf. hafi legið ljós fyrir í tvo áratugi og það hafi helstu viðskiptavinir fyrirtækisins vitað án þess að það hefði áhrif á viðskiptasambönd.

WDCS útskýra ekki í frétt sinni hvernig banninu verður framfylgt, en fréttin verður ekki skilin öðruvísi en að um sölu fiskmetis á Ólympíuleikvanginum og í Ólympíuþorpinu sé að ræða. Keppni fer reyndar fram víðs vegar um borgina og um England í nokkrum greinum.

Fréttablaðinu hafði ekki borist svar við fyrirspurn um málið frá fjölmiðlaskrifstofu Ólympíuleikanna þegar blaðið fór í prentun.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×