Innlent

Yfirtaka ÍLS á lánum lífeyrissjóða skoðuð

Starfshópur á að skila niðurstöðu fyrir helgi um hvort mögulegt sé að Íbúðalánasjóður komi að lánsveðslánum lífeyrissjóðanna svo hægt sé að fella þau niður að 110%, líkt og gert hefur verið við önnur lán.
Starfshópur á að skila niðurstöðu fyrir helgi um hvort mögulegt sé að Íbúðalánasjóður komi að lánsveðslánum lífeyrissjóðanna svo hægt sé að fella þau niður að 110%, líkt og gert hefur verið við önnur lán. fréttablaðið/hari
Starfshópur skoðar nú ýmsar útfærslur á því að Íbúðalánasjóður taki yfir lánsveðslán lífeyrissjóðanna. Ráðherra útilokar enga leið sem geti leyst hútinn. Lífeyrissjóðirnir vilja ekki fella niður lánin þar sem lög heimila þeim það ekki.

Starfshópur skoðar nú allar mögulegar leiðir til að Íbúðalánasjóður (ÍLS) taki yfir lánsveðslán lífeyrissjóðanna, en það eru lán sem byggja meðal annars á veðum ábyrgðarmanna. Líkt og komið hefur fram hafa lífeyrissjóðirnir hafnað því að fella þau lán niður að 110%, líkt og gert hefur verið við önnur lán, þar sem þeim sé ekki heimilt að afskrifa innheimtanlegar kröfur.

Lífeyrissjóðirnir lögðu til að Íbúðalánasjóður tæki lánin yfir gegn ríkisskuldabréfum. Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri ÍLS, segir vinnu starfshópsins þó ekki einblína á þá leið.

„Vinnan er ekki einskorðuð við það. Það er meira verið að finna hvar gætu verið einhverjir sáttafletir í málinu,“ segir Sigurður. „Það eru til ýmsar útfærslur á þessu og það er hægt að gera þetta með svo margvíslegum hætti.“

Sigurður segir heildarumfang lána ljóst, en um 2.400 lán er að ræða. „Það er heildarbrúttóstaðan, en svo er bara einhver lítill hluti lánanna sem er yfir 110%. Spurningin er hvort farin verði sú leið að við tökum yfir allt lánasafnið, eða hvort lánin verði hreinlega færð niður og bara tekið á því sem út af stendur.“

Sigurður segir mögulegan kostnað óljósan og miklu máli skipta hvaða leið verði farin, verði þetta að veruleika. „Þetta mun alltaf þýða aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.“

Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra efnahagsmála, segir að verði fundin einhver leið á þessum nótum sé ljóst að Íbúðalánasjóður verði dráttarklár í málinu. Þess vegna sé starfið nú að mestu á hans herðum.

„Það er meiningin að láta á það reyna hvort þessar hugmyndir sem lífeyrissjóðirnir töldu sig geta skoðað með okkur reynist færar og framkvæmanlegar.“

Hópurinn mun hafa hraðar hendur og skila niðurstöðum sínum fyrir helgi. Hann skipa fulltrúar efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, auk ÍLS og lífeyrissjóðanna. Þá hafa Samtök fjármálafyrirtækja komið að vinnunni.

Steingrímur segir mikilvægt að hafa hraðar hendur, en oft geti verið um snúin mál að ræða. Ekkert sé hins vegar útilokað fyrir fram.

„Engin leið sem mögulega er fær til að leysa þann hnút sem eftir stendur verður útilokuð.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×