Innlent

Flytur á Hrafnistu ef hún fær svítu

Þórdís Hreggviðsdóttir var algerlega grunlaus um hátíðlega athöfn henni til heiðurs í gær eftir 45 ára starf hjá Hrafnistu. Þórdísi voru færð blóm og þriggja vikna ferð til Benidorm.
Þórdís Hreggviðsdóttir var algerlega grunlaus um hátíðlega athöfn henni til heiðurs í gær eftir 45 ára starf hjá Hrafnistu. Þórdísi voru færð blóm og þriggja vikna ferð til Benidorm. Fréttablaðið/Valli
„Geðshræringin var svo mikil að sjá allt þetta fólk að ég brast bara í grát,“ segir Þórdís Hreggviðsdóttir sem í gær hlaut viðurkenningu fyrir störf sín á Hrafnistu síðustu 45 árin.

Þórdís hóf störf á Hrafnistu þegar hún átján ára gömul missti vinnuna í mjólkurbúð sem lögð var niður. „Mér var bent á að sækja um á Hrafnistu og ég gerði það, var ráðin á staðnum og mætti daginn eftir,“ segir Þórdís sem ekki leist nema í meðallagi vel á blikuna til að byrja með. „Fyrsta daginn var ég sett inn á stofu með fjórum köllum sem ég átti að þrífa og raka. Þá féllust mér dálítið hendur.“

Fyrstu þrjú árin starfaði Þórdís við ummönnun en síðan við framreiðslu í borðsal. Hún var algerlega grunlaus þegar hún var við störf í gær og var veitt viðurkenning fyrir ævistarfið.

„Enginn kjaftaði af sér allan daginn svo ég hafði ekki hugmynd um þetta,“ segir Þórdís sem auk þess að fá fallegan blómvönd fékk gjafabréf upp á þriggja vikna sólarlandaferð til Benidorm.

Þótt Þórdís hafi starfað á Hrafnistu í 45 ár er hún aðeins 63 ára. „Maður heldur áfram á meðan heilsan leyfir og á meðan þeir vilja hafa mig,“ segir hún.

Aðspurð kveðst Þórdís ekki viss um hvort hún sjálf flytji inn á Hrafnistu í fyllingu tímans. „Kannski, ef ég fæ svítu þegar ég hætti!“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×