Innlent

Gengistryggð lán milljónum lægri en verðtryggðu lánin

Kostnaður við að færa verðtryggð lán Íbúðalánasjóðs, frá árunum 2002 fram að hruni, niður að stöðunni eins og hún væri hefðu verðbólgumarkmið Seðlabankans staðið nemur 67,2 milljörðum króna. Þetta kemur fram í útreikningum sem KPMG hefur unnið fyrir Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Fyrirtækið reiknaði einnig þróun lána eftir því hvort þau væru verðtryggð eða gengislán. Tíu milljóna króna verðtryggt lán sem tekið var í júní 2002 stóð í 15,323 milljónum króna um síðustu áramót. Eftir dóm Hæstaréttar stendur tíu milljóna króna gengislán, tekið á sama tíma, í 7,974 milljónum króna. Sá sem tók verðtryggt lán skuldar því um 7,3 milljónum krónum meira en sá sem tók gengislánið.

Helgi hefur talað fyrir því að stjórnvöld fjármagni almenna skuldaniðurfærslu með því að skattleggja séreignarlífeyrissparnað strax. Í skýrslu KPMG kemur fram að heildartekjur af því hefðu í lok árs 2011 numið 76,6 milljörðum króna, miðað við lægsta skattþrep (37,35%) og 94,8 milljörðum króna miðað við hæsta skattþrep (46,24%).

Miðað við hámarksútsvar eiga sveitarfélögin 29,7 milljarða af þeirri upphæð. Í skýrslunni er hins vegar gengið út frá því að hluturinn renni ekki án skilyrða eða takmarkana til sveitarfélaganna.

Til þess eru nefndar þrjár leiðir: útsvarið verði greitt í formi skuldabréfs sem byrjað verði að borga af eftir 2014, útsvarið verði greitt út samhliða því að lífeyrisþegar taki út eign úr séreignarsjóðum, eða að Alþingi samþykki með lögum að heildarfjárhæðin renni í ríkissjóð og þá ekkert til sveitarfélaganna. Helgi segir þá niðurstöðu ólíklegasta.

Hugmyndirnar hafa verið kynntar fyrir þremur þingflokkum og Helgi segir þær innlegg í umræðu um skuldamál. „Sá mikli munur sem er á stöðu fólks með verðtryggð íslensk húsnæðislán annars vegar og hinna sem tóku gengistryggð lán kallar á að komið verði til móts við fólk með verðtryggð lán."- kóp / sjá síðu 10




Fleiri fréttir

Sjá meira


×