Innlent

Númerum stolið af 600 bílum

Stolin skráningarmerki eru notuð við stuld á eldsneyti.
fréttablaðið/anton Brink
Stolin skráningarmerki eru notuð við stuld á eldsneyti. fréttablaðið/anton Brink
lUm 600 tilkynningar um þjófnað á númeraplötum bifreiða hafa borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því að skráning slíkra mála hófst árið 2009. Hlutfall upplýstra mála er í kringum 10 til 20 prósent á ársgrundvelli, samkvæmt upplýsingum frá upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar. Oftast hefur þjófnaðurinn tengst stuldi á eldsneyti.

„Eldsneytisþjófnaðurinn hefur verið mest áberandi en dæmi eru um að stolnar númeraplötur hafi verið notaðar við önnur afbrot,“ segir Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn.

„Lögreglan hefur áhyggjur af tíðum eldsneytisþjófnuðum á þeim bensínstöðvum olíufélaganna sem heimila dælingu án þess að greitt sé fyrir eldsneytið áður. Þau brot tengjast mjög oft þjófnaði á skráningarmerkjum.“

Kristján Ólafur segir þau olíufélög sem um ræðir hafa dregið úr slíkri þjónustu en ekki nægjanlega að mati lögreglu. Um 30 til 40 prósent eldsneytisþjófnaðanna sem tilkynnt er um upplýsast, að sögn Kristjáns.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var eldsneyti stolið í 16 tilvikum hjá einu olíufélaganna á einni viku fyrir skemmstu. Í þeim tilvikum voru þjófarnir ýmist með stolnar númeraplötur eða á númerslausum bílum.

Hjá N1 var vandamálið orðið svo mikið að gripið var til þess ráðs á dögunum að fjarlægja af bensínstöðvum gula hnappinn sem á stóð „greitt inni“. Viðskiptavinir verða nú að biðja um að dæla verði sett í gang og greiða ýmist áður en þeir dæla eða eftir á greiði þeir ekki í sjálfsala.

Margir hafa komið á Umferðarstofu vegna kaupa á nýjum númeraplötum, samkvæmt upplýsingum starfsmanns þar. Það sem af er þessu ári hefur lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist yfir 40 tilkynningar um slíkan þjófnað. Í fyrra bárust 170 tilkynningar, árið 2010 voru tilkynningarnar 164 en 222 árið 2009.

Hver númeraplata kostar 2.600 krónur og sé báðum númeraplötunum stolið verður kostnaður bíleigandans þess vegna 5.200 krónur. Kostnaður við plötur á 600 bíla er rúmar 3,1 milljón króna.

Sævar Hreiðarsson hjá tjónadeild Tryggingamiðstöðvarinnar segir tjónið ekki bætt nema um sé að ræða enga eigin áhættu í kaskó. „Þetta er lítil upphæð og það er enginn með svo litla áhættu í kaskó.“

Að sögn Sævars getur verið um undantekningu að ræða ef skemmdir verða á bílnum þegar númeraplatan er tekin af honum. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×