Innlent

Eldgosin kostuðu ríkið 1,3 milljarða króna

Landgræðslan er ein þeirra stofnana sem hafa óskað eftir aukafjárframlagi vegna eldgosanna undanfarin ár.Fréttablaðið/Pjetur
Landgræðslan er ein þeirra stofnana sem hafa óskað eftir aukafjárframlagi vegna eldgosanna undanfarin ár.Fréttablaðið/Pjetur
Ríkisstjórnin hefur veitt um 1,3 milljarða króna aukalega vegna eldgosa og annarra hamfara síðan í maí árið 2010. Í þeirri fjárhæð er ekki meðtalinn margvíslegur kostnaður stofnana sem fjármagnaður hefur verið af árlegum fjárheimildum þeirra.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum á föstudag viðbótarútgjöld til Vegagerðarinnar, Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Landgræðslunnar vegna eldgosahrinunnar árin 2010 og 2011. Vegagerðin fær 82,5 milljóna króna aukafjárframlag, en kostnaður hennar vegna hamfaranna er talinn vera um 110 milljónir króna, þar af 20 milljónir vegna aðgerða við Svaðbælisá. Einnig var samþykkt að veita sex milljónir króna aukalega til almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra.

Landgræðslan hefur greint frá aukinni fjárþörf á árinu 2012, en lagt er til að því máli sé vísað í fjárlagaferli og til nánara mats hjá umhverfisráðuneytinu. Landgræðslan fékk 17,25 milljónir í fjáraukalögum í desember og tók á sig tæplega 6 milljónir í aukakostnað vegna verkefna síðasta sumar.

Samráðshópur ráðuneytisstjóra sjö ráðuneyta um viðbrögð við náttúruhamförum hefur verið að störfum frá fyrri hluta árs 2010. Með hópnum starfa fulltrúar frá forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×