Innlent

Segir rekstrarumhverfinu hafa hrakað

Niels Jacobsen stjórnarformaður Össurar á fundi í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík.
Niels Jacobsen stjórnarformaður Össurar á fundi í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík. Fréttablaðið/Stefán
Fljótfærnisleg, tíð og ófagleg lagasetning og vilji til þess að búa til séríslenskar lausnir sem ekki hafa verið reyndar annars staðar grefur undan stöðugleika og fyrirsjáanleika sem nauðsynlegur er í alþjóðaviðskiptum. Þetta sagði Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, á aðalfundi félagsins sem fram fór í gær.

Jacobsen ítrekar með orðum sínum gagnrýni á rekstrarumhverfi íslenskra stórfyrirtækja sem hann setti fram á aðalfundi Össurar fyrir ári síðan.

„Fyrirtækja- og lagaumhverfinu á Íslandi hefur hrakað síðustu ár,“ sagði hann og benti á að Össur starfaði nú á almennri undanþágu frá ríkjandi gjaldeyrishöftum. Yrði undanþágan afnumin myndi það hins vegar kippa fótunum undan rekstri fyrirtækisins.

„Við þurfum að sætta okkur við þvingaða skráningu á hlutabréfamarkað hér, minnkandi seljanleika og tvöfalt hlutabréfaverð. Við þurfum að þreifa okkur áfram í umhverfi alls kyns óvenjulegra reglugerða sem samkeppnisaðilar okkar þurfa ekki að taka tillit til.“

Jacobsen sagði síðasta ár annars hafa verið fyrirtækinu gjöfult. „Frá skráningu árið 1999 hefur stærð Össurar aukist tuttugu og tvöfalt miðað við sölu og fyrirtækið orðið eitt af arðbærustu fyrirtækjum Evrópu á sviði heilbrigðistækjabúnaðar.“ - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×