Innlent

LÍ segir útilokað að lagarökin standist

Landlæknir vill fá lista yfir allar konur sem fengið hafa sílikonpúða í brjóst sín hér á landi síðan árið 2006.
Landlæknir vill fá lista yfir allar konur sem fengið hafa sílikonpúða í brjóst sín hér á landi síðan árið 2006. Nordicphotos/afp

Læknafélag Íslands segir rök landlæknis er varða afhendingu á lista yfir konur með sílikonbrjóst ónæg. Persónuvernd úrskurðar í næstu viku. Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur ákveðið að slíkur gagnagrunnur verði gerður þar í landi.



Læknafélag Íslands (LÍ) segir útilokað að fallast á að eftirlit landlæknisembættisins með PIP-málinu svokallaða eigi að felast í því að fylgjast með hvort konurnar sem hafa fengið púðana í sig mæti í ómskoðun hjá Krabbameinsfélaginu.



Landlæknir hefur meðal annars fært þau rök fram til að fá afhentan lista frá Jens Kjartanssyni lýtalækni yfir nöfn og kennitölur kvenna sem hafa fengið umræddar fyllingar í brjóst sín.



Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri umsögn LÍ til Persónuverndar vegna kröfu landlæknis um að fá afhent nöfn kvennanna. LÍ gagnrýnir þau lagalegu rök landlæknisembættisins að listinn sé nauðsynlegur fyrir embættið til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þá hefur landlæknir einnig krafist þess að fá lista yfir allar þær konur sem fengið hafa sílikonfyllingar í brjóst sín hér á landi síðan árið 2006.



Persónuvernd á annars vegar að úrskurða hvort lýtalæknum beri skylda til að afhenda þann lista. Hins vegar snýr málið að Jens Kjartanssyni lýtalækni og lista hans yfir þær konur sem fengið hafa PIP-púða frá honum síðan árið 2000 og fengið hafa boð um brottnám púðanna á Landspítalanum. Málin verða lögð fyrir stjórn Persónuverndar í næstu viku.



Alls fengu 393 konur með PIP-púða boð um að koma í ómskoðun hjá Krabbameinsfélaginu. Af þeim hefur 221 komið í ómskoðun og greindist leki hjá 126 eða 57 prósentum þeirra.

sunna@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×