Innlent

Fylgjast með útbreiðslu veiru

Sauðburður er nýhafinn í Englandi og herjar þar á tugi búa. Veiran veldur vansköpun og dauða lamba.
fréttablaðið/vilhelm
Sauðburður er nýhafinn í Englandi og herjar þar á tugi búa. Veiran veldur vansköpun og dauða lamba. fréttablaðið/vilhelm
„Já, við höfum verið að fylgjast með útbreiðslu á þessari veiru. En við höfum ekki stórar áhyggjur, svo lengi sem flugan sem ber þetta finnst ekki hér á landi,“ segir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir um veiru sem hefur lagst á búpening í Evrópu.

Á síðari hluta árs 2011 varð veikinda vart í nautgripum og sauðfé í Þýskalandi, Hollandi og Belgíu, af völdum veiru sem ekki hefur greinst áður. Hún hefur verið nefnd Schmallenberg-vírus. Veiran berst milli dýra með skordýrum, oftast smámýi sem ekki lifir á Íslandi svo vitað sé. Því er talið ólíklegt að þessi nýja veira berist hingað til lands.

Veiran hefur nú borist til Englands, en sauðburður er nýlega hafinn í landinu. Bresku bændasamtökin gáfu það út á sunnudag að sumir bændur hafi misst allt að fjórðung nýfæddra lamba.

Halldór segir að eftir að hafa aflað upplýsinga hjá Náttúrufræðistofnun þá liggi fyrir að flugan hafi ekki fundist hér. „En hvað verður með hækkandi hitastigi – er erfitt að spá fyrir um,“ segir Halldór. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×