Innlent

Dómari bíður eftir sérstökum

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Sex milljarða skaðabótamál slitastjórnar Glitnis, kennt við félagið Aurum Holding, á hendur stjórnendum bankans er nú í biðstöðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómari vill vita hvað kemur út úr rannsókn sérstaks saksóknara á málinu áður en lengra verður haldið.

Einkamálalög veita dómara heimild til að fresta máli hafi hann vitneskju um að opinber rannsókn standi yfir á refsiverðu athæfi og að sú rannsókn geti skipt verulegu máli um úrslit einkamálsins. Þetta, og það að enn er beðið eftir gögnum í málinu, varð til þess að dómarinn Arngrímur Ísberg frestaði málinu fram í byrjun maí við fyrirtöku í gær.

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni, Lárusi Welding og þremur fyrrverandi starfsmönnum Glitnis er stefnt til greiðslu bóta í málinu.

Það snýst um sex milljarða lán sem Glitnir veitti félaginu F38 í eigu Pálma Haraldssonar sumarið 2008 til að kaupa bréf Fons, einnig í eigu Pálma, í bresku skartgripakeðjunni Aurum Holdings. Lánið er talið hafa runnið til þess að gera upp skuldir Fons við Stím, Pálma og Jón Ásgeir.

Sérstakur saksóknari rannsakar málið ásamt mörgum öðrum sem tengjast Glitni. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×