Innlent

Rannsaka áhrif bólusetningar

Foreldrar ársgamalla barna geta fengið fría bólusetningu gegn bakteríu sem veldur eyrnabólgum, alvarlegum blóðsýkingum og heilahimnu- og lungnabólgu.fréttablaðið/vilhelm
Foreldrar ársgamalla barna geta fengið fría bólusetningu gegn bakteríu sem veldur eyrnabólgum, alvarlegum blóðsýkingum og heilahimnu- og lungnabólgu.fréttablaðið/vilhelm
Hópur sérfræðinga á Landspítala og við Læknadeild Háskóla Íslands hefur hlotið stóran styrk til að rannsaka áhrif bólusetningar gegn alvarlegum sýkingarvaldi — bakteríutegund sem veldur algengum sýkingum eins og eyrnabólgum, lífshættulegum blóðsýkingum og heilahimnu- og lungnabólgu.

Fyrirhugað er að rannsaka ýmsa þætti í faraldsfræði bakteríunnar — pneumókokka — og áhrif bólusetninga gegn þeim á heilsu manna, sýklalyfjaofnæmi, kostnað og útbreiðslu. Rannsóknin á að standa í þrjú ár og kostnaður er áætlaður nálægt einni milljón evra, eða 160 milljóna íslenskra króna. Lyfjarisinn GlaxoSmithKline (GSK) greiðir kostnaðinn með styrk. Rannsóknin hafði fyrr fengið styrk frá Vísindasjóði Landspítala.

Um nokkurra ára skeið hefur verið til bóluefni gegn nokkrum algengum tegundum þessarar bakteríu sem hefur verið notað í mörgum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum með góðum árangri. Á síðastliðnu ári hófust sambærilegar bólusetningar gegn pneumókokkum á Íslandi með bóluefni frá GSK og er nú öllum börnum á fyrsta aldursári boðin slík bólusetning að kostnaðarlausu. - shá



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×