Lífið

Pönkast í bransanum á Eddunni

Logi veit ekki hversu langt hann ætlar að ganga í gríninu á Eddunni í kvöld.
Logi veit ekki hversu langt hann ætlar að ganga í gríninu á Eddunni í kvöld.
„Þetta á eftir að vera skemmtilegt,“ segir sjónvarpsmaðurinn Logi Bergmann Eiðsson.

Logi Bergmann verður kynnir á Edduverðlaunahátíðinni í Gamla bíói í kvöld. Starf kynnisins virðist æ meira snúast um að gera grín að bransanum, en hinn breski Ricky Gervais hefur til að mynda vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á Golden Globe-verðlaunahátíðum síðustu þriggja ára. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ætlar Logi að varpa bombum.

„Ég veit það ekki,“ segir hann og hlær. „Mér finnst að maður eigi að vera skemmtilegur, og ef ég móðga einhvern, þá verður bara að hafa það. Er það ekki?“

Logi segir það skyldu sjónvarpsmanna að reyna að vera skemmtilegir. Sjálfur ætlar hann að reyna. „Maður getur gert grín að hlutunum, en maður má ekki vera mjög dónalegur,“ segir hann. „Það er hægt að segja ótrúlegustu hluti ef þeir eru fyndnir. Það er annað mál ef maður er að drulla yfir fólk. En mér finnst að það mætti aðeins pönkast í fólki. Ég veit ekki hvað ég geng langt, það fer eftir því hvernig hlutirnir raðast.“

Logi kynnti síðast Edduverðlaunin fyrir áratug og segist ekki muna hvenær hann vann síðast, en í ár er þáttur hans Spurningabomban tilnefndur sem skemmtiþáttur ársins. Logi er spenntur fyrir verkefninu og segir af nægu að taka. „Þetta er búið að vera ágætisár. Það er heilmikið búið að gerast. Ekki hægt að kvarta undan því,“ segir hann.

Hátíðin verður sýnd á Stöð 2 og hefst klukkan 21.- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×