Innlent

Lesendur hvattir til að tilnefna

Samfélagsverðlaunin í fyrra komu í hlut sumarbúðanna í Reykjadal í Mosfellsdal. FRÉTTABLAÐIÐ/HAG
Samfélagsverðlaunin í fyrra komu í hlut sumarbúðanna í Reykjadal í Mosfellsdal. FRÉTTABLAÐIÐ/HAG
Hægt er að tilnefna til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins til miðnættis í kvöld. Lesendur blaðsins eru hvattir til þess að senda inn tilnefningar þannig að dómnefndin hafi úr sem mestu að moða þegar hún tekur til starfa. „Því fleiri tilnefningar frá lesendum, því betra og því meiri fjölbreytni þegar kemur að því að útnefna og verðlauna," segir Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og formaður dómnefndar um Samfélagsverðlaun.

Hægt er að tilnefna í fimm flokkum. Til Hvunndagshetju má tilnefna einstakling sem sýnt hefur óeigingirni eða hugrekki, hvort sem er við stakan atburð eða vinnu að ákveðnum málaflokki.

Í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar koma til greina kennarar, leiðbeinendur, þjálfarar eða aðrir uppfræðarar sem skarað hafa fram úr. Einnig má tilnefna félagasamtök sem sinna börnum.

Til atlögu gegn fordómum er flokkur einstaklinga og félagasamtaka sem hafa unnið að því að eyða fordómum í samfélaginu.

Heiðursverðlaun hlýtur einstaklingur fyrir ævistarf í þágu betra mannlífs.

Til sjálfra Samfélagsverðlaunanna má tilnefna félagasamtök sem vinna mannúðar- eða náttúruverndarstarf og leggja þannig sitt af mörkum til að gera samfélagið betra. Í þessum flokki er verðlaunafé ein milljón króna. - aþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×