Lífið

The Artist besta myndin

Tilnefningar til Óskarsins eru innan seilingar en gagnrýnendur völdu George Clooney og Violu Davis sem bestu leikara ársins.
Tilnefningar til Óskarsins eru innan seilingar en gagnrýnendur völdu George Clooney og Violu Davis sem bestu leikara ársins. NordicPhotos/Getty
The Artist stóð uppi sem sigurvegari hjá samtökum gagnrýnenda í Bandaríkjunum á fimmtudagskvöld. Þessi svarthvíta-kvikmynd þykir líkleg til sigra á Golden Globe-hátíðinni sem haldin verður á sunnudaginn. George Clooney hélt áfram sigurgöngu sinni en hann var valinn besti leikarinn fyrir frammistöðu sína í The Descendants.

Þrátt fyrir að risar á borð við Martin Scorsese og Steven Spielberg eigi kvikmyndir í verðlaunakapphlaupi þessa árs eru flestir sammála um að stríðið um bestu kvikmyndina standi milli The Artist eftir Michel Hazanavicius og The Descendants eftir Alexander Payne. Myndirnar hafa sópað til sín helstu verðlaunum kvikmyndaborgarinnar og margir spá því að myndirnar tvær eigi eftir að skipta stærstu verðlaunagripunum bróðurlega á milli sín.

Mannréttindamyndin The Help kom hins vegar mörgum á óvart því hún hirti bæði verðlaunin í kvennaflokki. Viola Davis var valin besta leikkonan og Octavia Spencer hreppti verðlaun fyrir bestan aukaleik. Christopher Plummer þykir síðan sigurstranglegur eftir að hafa hreppt gagnrýnendaverðlaunin fyrir aukaleik í karlaflokki í kvikmyndinni Beginners.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×