Innlent

Stjórnarformanni Hafró skipt út

Steingrímur J. Sigfússon tók við af Jóni Bjarnasyni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á föstudag. Fréttablaðið/daníel
Steingrímur J. Sigfússon tók við af Jóni Bjarnasyni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á föstudag. Fréttablaðið/daníel
Jón Bjarnason, sem lét af embætti sjávarútvegsráðherra á föstudag, lét það verða eitt af sínum síðustu verkum í embætti að biðja Friðrik Má Baldursson um að láta af embætti stjórnarformanns Hafrannsóknastofnunar. Varð Friðrik við þeirri bón á föstudag og tók Erla Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar á Rifi, við starfinu.

Að sögn Friðriks Más hafði Jón samband við hann á fimmtudag og bað um að hann bæðist lausnar úr starfi. Á föstudag varð Friðrik svo við þeirri bón þar sem hann taldi sig ekki geta gegnt starfinu í óþökk ráðherra. Friðrik segir engan aðdraganda hafa verið að bóninni, og þá hafi honum verið þökkuð góð störf í lausnarbréfi sínu.

Fréttablaðið náði ekki tali af Jóni Bjarnasyni í gærkvöldi en haft var eftir honum í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að engar sérstakar ástæður hefðu verið fyrir skiptunum, þá hefði hann verið ánægður með störf stjórnarinnar. Ekki náðist heldur í Steingrím J. Sigfússon sem tekið hefur við embætti sjávarútvegsráðherra.

Nýr stjórnarformaður, Erla Kristinsdóttir, hefur verið gagnrýnin á störf Hafrannsóknastofnunar. Í ræðu sem hún flutti í febrúar árið 2010 sagði hún þannig að sjávarútveginum stæði beinlínis ógn af vinnubrögðum stofnunarinnar og gaf í skyn að henni hefði tekist illa upp við að mæla stærð fiskistofna við Ísland.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×