Innlent

Fjöldi nýnema mætir aldrei

Frá Háskólatorgi í Háskóla Íslands.
Frá Háskólatorgi í Háskóla Íslands. mynd úr safni
Brottfall 1. árs nema við Háskóla Íslands er of hátt. Hafi skráningarhlutfall ekki breyst eftir hrun hafa 1.500 stúdentar ekki mætt, hætt snemma eða fallið á prófi. Stöðupróf eru íhuguð til að mæta brottfalli.

Brottfall þeirra sem hefja nám við Háskóla Íslands er vandamál sem taka þarf sérstaklega á, er mat Jóns Atla Benediktssonar, aðstoðarrektors vísinda og kennslu við HÍ. Fjölmargir sem skrá sig setjast ekki á skólabekk. Stöðupróf koma til greina til að mæta vandanum, sérstaklega í þeim deildum þar sem vandinn er mestur.

Jón Atli segir að vegna þess hversu margir nýnemar láta ekki sjá sig sé erfiðara að skipuleggja skólastarfið. Einnig flosna margir fyrsta árs nemar upp úr námi mjög fljótt eða falli á fyrstu prófum. „Háskóli Íslands er opinn skóli svo ekkert er því til fyrirstöðu að skrá sig til náms að uppfylltum lágmarkskröfum og sjá svo bara til hvernig það gengur eða án alvöru ásetnings um nám. Þetta er vandi sem nauðsynlegt er að bregðast við," segir Jón Atli.

Fyrir þremur árum var gerð nákvæm greining á fyrsta árs brottfalli við HÍ, eða fyrir skólaárið 2006-2007. Kom þá fram að fyrsta árs brottfall við skólann var rúmlega 35%, en inni í þeirri tölu er svokallað skráningarbrottfall, eða nemendur sem skrá sig en koma ekki til náms.

Niðurstaða Félagsvísindastofnunar fyrir árin 2003 til 2006 var að 55% brottfallsnema sóttu enga fyrirlestra eða verklega tíma við HÍ. Nýskráningar við HÍ voru um 4.300 fyrir síðasta skólaár. Hafi skráningarbrottfall ekki breyst eftir hrun myndi það þýða að af hópi nýskráðra í fyrra hafi um 1.500 stúdentar ekki mætt, hætt fljótlega eftir að skóli hófst eða fallið á fyrstu prófum.

Til að bregðast við vandanum er rætt að taka upp stöðupróf við HÍ. Jón Atli segir að tilgangurinn sé einkum þríþættur. „Í fyrsta lagi að tryggja gæði náms og kennslu með því að aðstaða og aðbúnaður til kennslu í viðkomandi deild samræmist nemendafjölda. Í öðru lagi er tilgangurinn sá að draga úr brottfalli og auka námsárangur. Í þriðja lagi er tilgangurinn af fjárhagslegum toga, enda liggur fyrir að HÍ fær ekki greitt kennsluframlag fyrir alla nemendur," segir Jón Atli.

HÍ hefur unnið að því á undanförnum árum að minnka brotfallið með því að auka festuna í skólastarfinu, bæta móttöku nýnema, auka eftirlit með námsframvindu, efla stuðningsnet við nýnema, stytta úrsagnarfresti úr prófum, og fleira. Þess má geta að virkni nemenda, eða nemendur í fullu námi af heildarfjölda nemenda, hefur aukist.

Þannig var virknin 62,9% 2006-2007 en 67,5% skólaárið 2010-2011. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×