Innlent

Ríkisstjórnin bundin af samþykkt Alþingis

Stefna ríkisstjórnarinnar Þorsteinn Pálsson (til hægri) heldur því fram að með bókun í ríkisstjórn sem Ögmundur Jónasson (til vinstri) fjallar um hafi aðildarviðræðum við ESB verið hætt.samsett mynd
Stefna ríkisstjórnarinnar Þorsteinn Pálsson (til hægri) heldur því fram að með bókun í ríkisstjórn sem Ögmundur Jónasson (til vinstri) fjallar um hafi aðildarviðræðum við ESB verið hætt.samsett mynd
Aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið hefur ekki verið hætt. Þetta segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Vinstri grænna.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifaði pistil í Fréttablaðið á laugardag þar sem hann vísaði í skrif Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, í blaðinu á miðvikudag. Ögmundur sagði að á ríkisstjórnarfundum í júlí og í ágúst hefðu verið settir þrír fyrirvarar við samningsmarkmiðin í peningamálum. Sá fyrsti væri að hér yrðu gjaldeyrishöft afnumin, annar væri að Ísland hefði aðlögunarferli að upptöku evru og þriðji væri upptaka evru.

Þorsteinn fjallar um skýrslu Seðlabankans um varúðarreglur eftir fjármagnshöft sem vísi til þess að ekki verði fallið frá gjaldeyrishöftunum í bráð. "Það merkir að VG hefur í raun og veru stöðvað aðildarviðræðurnar í júlí," skrifar Þorsteinn og kallar eftir því að bókanir af fundum ríkisstjórnarinnar um málið verði opinberaðar til þess að eyða óvissu um framtíð aðildarviðræðnanna.

"Það er mikilvægt að menn átti sig á því að samningsafstaða Íslands í einstökum köflum tekur mið af samþykkt Alþingis," segir Árni Þór og bendir á að ríkisstjórnin getur ekki tekið einhliða ákvörðun um aðildarviðræðurnar. "Það væri ekki hægt nema með aðkomu þingsins. Ríkisstjórnin er bundin af samþykkt Alþingis."

Spurður hvort hann viti til þess að fyrirvararnir sem Ögmundur kynnti í grein sinni hafi verið bókaðir í ríkisstjórn, segir Árni Þór: "Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið bókaðir neinir fyrirvarar í ríkisstjórn í júlí þegar afstaða til efnahags- og peningamála var afgreidd úr ríkisstjórn. Utanríkismálanefnd eða okkar þingflokki hefur ekki verið gerð grein fyrir því."

Árni Þór bendir á að það megi vel vera að einstaka ráðherrar hafi reifað viðhorf sín almennt til málsins en fyrirvarar Vinstri grænna við inngöngu Íslands í ESB birtist í stjórnarsáttmálanum sjálfum.

Alþingi kemur saman á ný 15. september og Árni Þór segir að Evrópumálin verði enn á dagskrá. "Við teljum að það sé margt sem mæli með því að farið verði yfir stöðu málsins og rætt um framgang þess á næstu mánuðum. Ég vona að við getum farið í þá umræðu."

birgirh@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×