Innlent

Unglingar eyða meiri tíma með foreldrum sínum

BBI skrifar
Móðir og dóttir taka mynd af sjálfum sér himinlifandi í framan. Þeim að baki er himinbláminn.
Móðir og dóttir taka mynd af sjálfum sér himinlifandi í framan. Þeim að baki er himinbláminn. Mynd/Getty
Fjöldi þeirra unglinga sem eyða miklum tíma með foreldrum sínum utan skóla hefur aukist töluvert síðustu fimmtán ár. Þetta kemur fram í nýju riti sem unnið var fyrir menntamálaráðuneytið og nefnist Ungt fólk 2012.

Árið 1997 eyddi rétt um fjórðungur barna í 9. og 10. bekk miklum tíma með foreldrum sínum eftir skóla á virkum dögum. Það hlutfall hefur aukist umtalsvert síðan þá og nú eyða 49% stúlkna miklum tíma með foreldrum sínum en 44% stráka. Hlutfallið er enn hærra þegar samvistir við foreldra um helgar eru skoðaðar og hefur einnig aukist.

Á sama tíma lækkar hlutfall barna í 9. og 10. bekk sem eru mikið úti eftir klukkan 10 á kvöldin. Nú er það hlutfall rétt um og yfir 25% en var fyrir tólf árum í kringum 50%. Þetta virðist jafnvel haldast í hendur við hlutfall barna á þessu reki sem fer vikulega í partí, en það hlutfall hefur lækkað mjög síðustu 12 ár. Nú fara aðeins 2% barna í partí vikulega eða oftar en árið 1997 gerðu það 11%.

Í ritinu segir að rannsóknir síðustu áratuga bendi til þess að tengsl barna við foreldra sína skipti miklu máli fyrir þroska þeirra. Þá kemur fram að þau börn sem verja miklum tíma með foreldrum sínum er ólíklegri en önnur til að leiðast út í notkun vímuefna. Þá gengur þeim yfirleitt betur í skóla og eignast vini af svipuðu reki.

Æskulýðsrannsóknirnar undir formerkjum „Ungt fólk“ hafa verið gerðar síðan árið 1992 þegar Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála að frumkvæði menntamálaráðuneytisins, hóf að framkvæma kannananir meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×