Innlent

Ögmundur þarf að bregðast við úrskurðinum

Karen Kjartansdóttir skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra verður að víkja úr embætti ef dómstólar komast að sömu niðurstöðu og kærunefnd Jafnréttisstofu. Þetta segir, formaður þingflokks Vinstri grænna. Lögmaður konunnar segir að enn hafi ekki verið ákveðið hvort krefjast eigi skaðabóta, en konan hafi bæði orðið fyrir fjárhagstjóni og miska.

Þann 28. ágúst úrskurðaði Kærunefnd jafnréttismála um að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi brotið jafnréttislög þegar hann skipaði karl í embætti sýslumannsins á Húsavík í fyrra.

Sýslumenn landsins eru að miklum meirihluta karlar og ef umsækjendur eru jafnhæfir skal ráða þann af því kyni sem er í minnihluta. Þar fyrir utan þótti sýnt að kona sem sótti um væri hæfari en karlinn í fjórum hæfnisþáttum af átta og jafnhæf í þremur. Karlinn var aðeins talinn hæfari í einu atriði.

Ögmundur Jónasson, hefur neitað að biðjast afsökunar vegna málsins og segist standa við ákvörðun sína.

Um þetta fjallar Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna í dag. Þar segir meðal annars að einhvern veginn þurfi að bregðast við úrskurði kærunefndarinnar. Hægt væri að leita sátta, það þurfi ráðherra væntanlega að gera en með sáttaumleitan viðurkenni ráðherra í raun að hafa gengið gegn lögum við skipan í embættið. En ef sættir nást ekki er líklegast að málið komi til kasta dómstóla.

Þá komi tvennt til greina.

Ef dómstólar kveða upp þann dóm að ráðherra hafi gert rétt með skipan í embættið er málið þar með dautt. Ef dómur verður á annan veg verður ráðherra að mínu mati að víkja úr embætti.

Áslaug Árnadóttir lögmaður konunnar segir að þær hafi beðið eftir viðbrögðum frá Ögmundi vegna málsins. Hann hafi haft samband í dag en ekki beðist afsökunar. Þær bíði ætli hins vegar bíða eftir því að frestur til að kæra úrskurð kærunefndarinnar sé liðin áður en þær taki ákvörðun um framhaldið. Ljóst sé að þær ætli ekki að kæra úrskurðinn, boltinn sé því hjá Ögmundi.

Vegna umfjöllunar Stöðvar 2 í gær um ráðherra sem brotið hafa jafnréttislög vill Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi dóms og kirkjumálaráðherra, taka fram að það var niðurstaða sérstakrar valnefndar að skipa Karl í Ólafsvíkurprestakall. Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála var hins vegar sú að ráðherra beri endanlega ábyrgð á því að gætt sé réttrar málsmeðferðar við val á prestsefni og að farið sé að jafnréttislögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×