Innlent

Miklar kerfisbreytingar í sjávarútvegi - framsal takmarkað verulega

„Það er óhætt að segja að þarna séu miklar kerfisbreytingar í sjávarútvegi," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, þar sem hún ásamt Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegsráðherra, kynntu tvenn frumvörp er varðar stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

Jóhanna sagði á blaðamannafundinum í Sjóminjasafninu að hún liti svo á að með frumvörpunum, sem hafa verið samþykkt í báðum stjórnarflokkunum, myndi arðurinn af sjávarútveginum renna í miklu meira mæli til þjóðarinnar.

Frumvarpið felur meðal annars í sér að útgerðir leigja kvóta til 20 ára og fá svo leigusamninginn endurnýjaðann. Jóhanna segir að ennfremur sé komið í veg fyrir fénýtingu á aflaheimildum þar sem framsalið er verulega takmarkað. Jóhanna telur að það sem vekji mesta athygli sé nýliðun, stækkun á leigupottum og arðurinn gangi frekar til þjóðarinnar en áður.

Þá munu frumvörpin gefa ríkinu færi á að úthluta kvóta til byggðarlaga og sérstakra svæða. Jóhanna benti á að árið 2009 og 2010 hafi hagnaður sjávarútvegs verið 60 milljarðar króna. Af þessum peningum runnu 3-5 milljarðar til þjóðarinnar.

Steingrímur sagðist gera sér grein fyrir að sumir myndu svo líta á að veiðigjöldin væru íþyngjandi, en arðurinn rynni þess í stað frekar til þjóðarinnar. Þá væri komið til móts við atvinnufrelsi í faginu og þannig bætt úr því lagaumhverfi sem hér hefur verið gagnrýnt, en Mannréttindadómstóll Evrópu hefur meðal annars úrskurðað gegn takmörkunum á atvinnufrelsi í sjávarútvegi.

Þá er það einnig fest í lög, verði frumvarpið samþykkt, að sjávarútvegsauðlindin verði ávallt í eigu þjóðarinnar.

Hægt er að horfa á beina útsendingu frá fundinum á forsíðu Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×