Innlent

Síminn hringir látlaust hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins

LVP skrifar
Ragnheiður Haraldsdóttir er forstjóri Krabbameinsfélagsins.
Ragnheiður Haraldsdóttir er forstjóri Krabbameinsfélagsins.
Síminn hefur vart stoppað hjá Leitarstöð krabbameinsfélagsins síðan í gær. Þá birtust fréttir af því að konur greinist nú með leghálskrabbamein á alvarlegra stigi en áður þar sem dregið hefur úr mætingu í krabbameinsskoðun.

Helmingi fleiri konur greindust með leghálskrabbamein á alvarlegu stigi á árunum 2008 til 2012 miðað við árin 1998 til 2002. Talið er að ástæðan sé meðal annars sú að færri konur mæta í reglulega krabbameinsleit en áður. Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins sagði í fréttum okkar í gær að það væri mikið áhyggjuefni að dregið hefði úr því að konur mættu í krabbameinsleit.

Þar sem leghálskrabbamein sé hægt að finna á forstigi sé mikilvægt að konur láti skoða sig reglulega svo hægt sé að bregðst snemma við. Í samtali við fréttastofu í morgun sagði Ragnheiður að margar konur hafi tekið við sér eftir fréttaflutning af málinu í gær og bókað skoðun. Mikið álag hafi verið á símkerfinu hjá Leitarstöðinni og síminn ekki stoppað í morgun.

Á hverju ári látast að meðaltali tvær konur hér á landi af völdum leghálskrabbameins. Á síðasta ári létu tvær konur sem aðeins voru 24 og 26 ára lífið eftir baráttu við krabbameinið. Þær tvær eru þó ekki dæmi um konur sem ekki mættu reglulega í krabbameinsleit.

Lára Sigurðardóttir læknir vinnur nú að gerð sérstaks fræðslumyndbands sem gera á til að hvetja konur til að mæta í krabbameinsleit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×