Innlent

Gagnrýnir ESB fyrir fjáraustur í kynningarmál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásmundur Einar Daðason er þingmaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason er þingmaður Framsóknarflokksins.
Annar aðillinn má ekki vera með tíu til fimmtán sinnum meiri fjármuni en hinn aðilinn þegar verið er að kynna mikilvægan málstað, segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins. Í viðtali við Reykjavík síðdegis í dag gagnrýndi hann þau miklu fjárútlát sem Evrópusambandið er reiðubúið til að greiða í kynningarmál á Íslandi í miðjum aðildarviðræðum. Máli sínu til stuðnings bendir Ásmundur Einar á Evrópustofu, sem er byrjuð að auglýsa og heldur opna fundi um málefni Evrópusambandsins. Þetta kosti 200 milljónir á ári og með þessu sé verið að afla stuðnings við Evrópusambandið.

Þá ræddi Ásmundur Einar þá stöðu sem kom upp þegar Framsóknarflokkurinn hélt fund um möguleika á að taka upp kanadadollar. Þá var sendiherra Kanada á Íslandi boðaður á fundinn en svo afboðaður vegna skilaboða frá Kanada um að hann mætti ekki blanda sér í innanríkismál Íslendingar. „Þetta er auðvitað alveg rétt samkvæmt laganna hljóðan, segir Ásmundur Einar. Staðreyndin hafi hins vegar verið sú að um leið og þetta var að gerast hafi sendiherra Evrópusambandsins verið að ganga í fyrirtæki á Akureyri og boða til opins fundar um málefni Evrópusambandsins.

Ásmundur Einar segir það vera gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórnin komi þeim skilaboðum til sendiráðs ESB að hér eigi að vera hlutlaus umræða. Það sé ekki gert með beinni pólitískri hlutun sendiráðs Evrópusambandsins og miklum fjáraustri í kynningarmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×