Innlent

Kærðir fyrir að nema á brott stóran hluta gervigígs í Aðaldal

Það er lögreglan í Húsavík sem sér um rannsókn málsins.
Það er lögreglan í Húsavík sem sér um rannsókn málsins.
Umhverfisstofnun hefur farið fram á að lögregluembættið í Húsavík rannsaki efnistöku í gervigígum í Aðaldal í Þingeyjarsveit en gígarnir njóta sérstakrar verndunar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Umhverfisstofnun barst ábending um að einhver væri að taka efni úr gígunum. Eftir að hafa gengið úr skugga um að sveitarfélagið hafði ekki heimilað slíka töku fór skipulagsfulltrúi á svæðið og stöðvaði umsvifalaust framkvæmdir. Í framhaldinu fóru fulltrúar Umhverfisstofnunar á vettvang.

Ekki leyndi sér að þar hafði farið fram nokkuð umfangsmikið malarnám úr gervigígum og var t.a.m. búið að nema á brott stóran hluta gervigígs.

Umhverfisstofnun telur að ógerlegt sé að fara út í framkvæmdir til að endurheimta þær jarðmyndanir sem þarna hefur verið valdið tjóni á.

En stofnunin telur jafnframt ekki boðlegt að verndaðar jarðmyndanir verði skildar eftir í því ásigkomulagi sem þær eru í dag enda veldur gígurinn sem tekið hefur verið af þó nokkrum neikvæðum sjónrænum áhrifum. Umhverfisstofnun hefur því farið fram á það við lögregluembættið á Húsavík að málið verði rannsakað, enda telur stofnunin mögulegt að hér sé um að ræða refsivert brot á lögum um náttúruvernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×