„Ein hugmyndin er að þetta verði á Vitatorgi eða ef til vill á Mýrargötureitnum þar sem gert er ráð fyrir nokkrum litlum torgum," segir Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, um hugsanlega staðsetningu torgs sem Arkitektur- og designhøgskolen í Ósló hefur óskað eftir að fá að byggja í Reykjavík.
Ef borgaryfirvöld samþykkja beiðni skólans verður hönnun torgsins meistaraprófsverkefni nemenda við alþjóðadeild skólans. Skólinn leggur áherslu á skjót svör frá borginni því fjármagna þurfi ferðir og kennaralaun utan við reglulega útgjaldaáætlun skólans. Búast má við að skipulagsráð taki málið fyrir á næstu vikum.
Samtökin Í okkar höndum hafa haft milligöngu um verkefnið. Steinþór Helgi Arnsteinsson, forsvarmaður samtakanna, segir þau systursamtök Nelson Mandela-samtakanna í Suður-Afríku.
„Þetta eru góðgerðarsamtök," segir hann. „Markmið okkar er fyrst og fremst að kynna og koma áleiðis boðskap Nelson Mandela."
Þess má geta að rektor Arkitektur- og designhøgskolen gekk í hjónaband hérlendis í sumar er hún giftist íslenskum manni. Steinþór segir að sú heimsókn hafi reynst mikilvægt lóð á vogarskálarnar auk þess sem eiginmaður hennar hafi starfað fyrir Nelson Mandela-samtökin.
„Hún er mjög hrifin af Reykjavík og líst afar vel á uppbygginguna sem á sér hér stað. Henni er mjög áfram um það að fá að tengja skólann við borgina."- gar
Nelson Mandela á Vitatorgi eða Mýrargötu
