Innlent

Fagna því að konur séu í meirihluta í ríkisstjórn Íslands

Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar fagnar því að í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er kona fjármálaráðherra og konur í meirihluta í ríkisstjórn landsins, samkvæmt tilkynningu sem stjórnin sendi frá sér í dag.

Þar segir að það sé mikið gleðiefni að Oddný G Harðardóttir, nýr fjármálaráðherra, hyggist leggja áherslu á kynjaða hagstjórn í ráðuneyti sínu.

Svo segir orðrétt í tilkynningunni:

Samfylkingin hefur verið í fararbroddi í jafnréttismálum undanfarin ár. Fyrsta íslenska ríkisstjórnin undir forsæti konu var mynduð fyrir tæpum þremur árum af Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var jafnframt fyrsta ríkisstjórnin hérlendis þar sem hlutfall kynjanna var jafnt.

Með kynjaðri fjárlagagerð er samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða bætt við önnur sjónarmið við fjárlagagerð og áhrif fjárhagslegra ákvarðana á bæði kynin þannig höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku. Kynjuð hagstjórn hefur verið gríðarlega vanmetið jafnréttistæki og er það trú stjórnar Kvennahreyfingarinnar að á næstu misserum munum við sjá hvernig beita má fjárlögum til aukins jafnréttis.

Þessi ákvörðun Oddnýjar sýnir hversu mikilvægt það er að bæði kyn komi jafnt að stjórnun landsins til þess að fjölbreytt sjónarmið og reynsla fái að njóta sín. Fjölmargar rannsóknir sýna að sem jafnast hlutfall kynja við stjórnun stuðlar að betri árangri. Samfylkingin hefur nú leiðrétt þann halla sem verið hefur á kynjahlutfalli ráðherra í annarri ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×