Innlent

Stríðsbrúðurin líklega komin í leitirnar

Radna E. Íshólm ásamt dóttur sinni Lou Ann Lemaster. Radna lést úr lungnakrabbameini árið 2002. Hún sagði fjölskyldu sinni aldrei frá þeim hryllingi sem hún mátti þola í fyrra hjónabandi sínum.
Radna E. Íshólm ásamt dóttur sinni Lou Ann Lemaster. Radna lést úr lungnakrabbameini árið 2002. Hún sagði fjölskyldu sinni aldrei frá þeim hryllingi sem hún mátti þola í fyrra hjónabandi sínum. mynd úr einkasafni
Dóttir íslenskrar konu, sem hvarf sporlaust á sjötta áratugnum, segist ekki hafa vitað um þann hrylling sem móðir hennar gekk í gegnum í fyrra hjónabandi sínu. Svo virðist sem Ragna Esther Gavin sé komin í leitirnar eftir sextíu ár.

Ragna Esther hvarf sporlaust árið 1952. Sex árum áður flutti hún til Portland í Bandaríkjunum ásamt Larry Gavin, eignmanni sínum sem hún kynntist hér á landi á stríðsárunum.

Fjölskylda hennar hefur reynt að komast að afdrifum hennar en án árangurs. Ættingjar hennar og lögreglu grunaði að ofbeldisfullur eiginmaður hennar hafi með einhverjum hætti komið að hvarfi hennar.

Málið tók aðra stefnu á miðvikudaginn þegar íslensk kona, Lillý Valgerður Oddsdóttir, sem með hjálp leitarvéla, fann konu sem bar nafnið Radna E. Íshólm Wicker og lést árið 2002.

Í samtali við fréttastofu í dag segir Lillý að hún hafi fundið konuna á óútskýranlegan hátt en hún hafi notað ímyndunaraflið þegar hún leitaði að Rögnu. Skyndilega hafi hún hitt á manneskju sem bar þetta nafn, Radna Íshólm, og henni hafi fundist grunsamlegt að barnabarn hennar héti Kristjana, rétt eins og móðir Rögnu Estherar, og að hún hafi verið fædd sama dag og Ragna Esther.

Dóttir Rödnu, Lou Ann Lemaster, segist sannfærð um að Ragna og Radna séu ein og sama konan. Hún segir að móðir sín hafi aldrei rætt um fortíð sína og fortíð hennar hafi komið fjölskyldunni mjög á óvart. Það var ekki fyrr en Lou Ann var rúmlega þrítug sem móðir hennar sagði henni að hún hafi eignast tvö börn með öðrum manni. Það kemur heim og saman við sögu Rögnu Estherar, sem eignaðist tvö börn með Larry.

Í samtali við fréttastofu segist hún sannfærð um að móðir sín hafa skipt um nafn á sjötta áratugnum og hafið nýtt líf í Alabama - og ekki sagt neinum frá fyrra hjónabandi sínu og þeim hörmungum sem hún gekk í gegnum.

Á miðvikudaginn hafði Lillý Valgerður samband við hana og sagði henni frá grunsemdum sínum um að Ragna Esther, væri í raun Radna E. Íshólm.

„Ég get aðeins sagt að mér brá við, ég varð glöð, spennt og döpur. Ég upplifði allt tilfinningalitrófið. Ég er einnig mjög stolt af henni að vita til þess að hún lét ekki þennan hrylling og það hræðilega sem þessi maður gerði henni hafa áhrif á sig til frambúðar og að hún var áfram yndisleg, umhyggjusöm og ástrík manneskja," segir Lou Ann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×