Innlent

Risalaxeldi í Berufirði fyrir vistvænar kröfur

Sveitarstjórinn segir sjávarútveg vera hryggjarstykkið í atvinnulífi Djúpavogshrepps auk þess sem ferðaiðnaður eigi þar stóran þátt. Hann vonast til að mikil uppbygging fylgi laxeldi í Berufirði.
Sveitarstjórinn segir sjávarútveg vera hryggjarstykkið í atvinnulífi Djúpavogshrepps auk þess sem ferðaiðnaður eigi þar stóran þátt. Hann vonast til að mikil uppbygging fylgi laxeldi í Berufirði. Fréttablaðið/Pjetur
„Þetta er fiskur sem keppir á öðrum mörkuðum en hefðbundið laxeldi,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, um áform Fiskeldis Austfjarða ehf. í Berufirði.

Fiskeldi Austfjarða keypti á dögunum fiskeldi HB Granda í Berufirði. Þar var nokkuð þorskeldi sem lagt var af eftir söluna. Fiskeldi Austfjarða réði hins vegar alla þrjá starfsmenn HB Granda á staðnum og hefur þegar sett fimmtíu þúsund laxa í sjókvíarnar í Berufirði. Það er þó aðeins blábyrjunin því á árinu 2014 er ætlunin að um tvær milljónir fiska verði í stöðinni. Það segir Gauti bæjarstjóri að samsvari á að giska sex þúsund tonna ársframleiðslu.

„Það er talað um að innan ekki margra ára komi tugir manna til með að starfa við þetta og þessu fylgir umtalsverð uppbygging. Við erum líka sérstaklega ánægð með að þetta samræmist vel stefnu sveitarfélagsins um að vera á vistvænum nótum,“ segir Gauti. „Þeir nota til dæmis ekki litarefni eins og er yfirleitt notað til að fá kjötið í fiskinum rauðara og fóðrið sem þeir nota er samsett á annan hátt en hið hefðbundna.“

Aðspurður hvort slík magnframleiðsla þurfi ekki að fara í umhverfismat segir Gauti svo ekki vera. „Þeir taka við eldi frá HB Granda sem er með átta þúsund tonna leyfi, bæði fyrir þorsk og lax. Það geta menn fært á milli tegunda án þess að það sé stórmál,“ svarar hann.

Ekki náðist í forsvarsmenn Fiskeldis Austfjarða í gær en í bókun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps segir að þeir séu bjartsýnir á framhaldið enda hafi áætlanir staðist hingað til. Fyrirtækið vonist eftir góðu samstarfi við stjórnendur, starfsmenn og íbúa hreppsins. Tengt Fiskeldi Austfjarða sé félagið Náttúra fiskeldi ehf. í Þorlákshöfn.

„Sveitarstjórn er þess fullviss að þessi jákvæða innspýting í atvinnumálin sem fyrirhuguð er á svæðinu eigi eftir að styrkja samfélagið á Djúpavogi í heild mjög mikið á komandi árum,“ segir í bókuninni.

Gauti undirstrikar þó að atvinnuástandið á Djúpavogi sé ágætt. Sveitarfélagið sé það eina á Austurlandi þar sem íbúum hafi fjölgað á tveimur síðustu árum. „Okkar styrkur í gegn um tíðina hefur kannski legið í því að við erum þannig í sveit sett að við höfum aldrei verið að bíða eftir neinu. Það var aldrei neitt sem var alveg að koma og átti að redda okkur.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×