Innlent

Strandveiðimenn óttast lágt fiskverð

BBI skrifar
Mynd/Stefán Karlsson
Strandveiðimenn á Vesturlandi eru óánægðir með fyrirkomulag strandveiða fyrir verslunarmannahelgina og búast við að það skili sér í lágu fiskverði. Þeir vilja að veiðarnar byrji á öðrum degi.

Vestan af landinu á svæði A, sem nær frá Snæfellsnesi að Súðavík verður einungis leyfilegt að veiða 333 tonn sökum þess að farið var langt fram yfir leyfilegt hámarksmagn í maí og júlí. Því er líklegt að það taki ekki nema tvo daga að ná ágústveiðinni.

Veiðarnar hefjast miðvikudaginn 1. ágúst. Þær standa því að öllum líkindum bara fram á fimmtudag fyrir verslunarmannahelgi. Líkur standa til þess að flestar fiskvinnslur verði lokaðar á föstudeginum. Því er ekki ólíklegt að eftirspurnin eftir fiski sem veiðist þessa tvo daga verði lítil sem svo skilar sér í lægra verði.

Sjómenn hafa sýnt áhuga á að færa þessa tvo veiðidaga til. Rætt hefur verið við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem hafnaði þeirri málaleitan.

Sagt er frá málinu á vef Skessuhorns. Þar er rætt við Pál Ingólfsson, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðar Íslands, sem býður upp afla sjómanna. Hann segir mikla hættu á að fiskurinn úr strandveiðunum í ágúst verði verðlítill. Hann telur þó að fiskurinn muni allur seljast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×