Innlent

Vill fá ferðamenn í sjósund í Skagafjörð

Fimmhundraðasta leyfi Ferðamálastofu féll Benedikt í skaut svo nú er hann með pappíra upp á vasann til að fara með ferðamenn í sjósund.
Fimmhundraðasta leyfi Ferðamálastofu féll Benedikt í skaut svo nú er hann með pappíra upp á vasann til að fara með ferðamenn í sjósund. mynd/ferðamálastofa
Sjósundkappinn og listamaðurinn Benedikt Lafleur hefur uppi áform um að koma á laggirnar ferðaþjónustu tengdri sjósundi. Benedikt fékk í síðustu viku ferðaskipuleggjandaleyfi og ætlar að hefja tilraunaferðir á næstu vikum en ryðja sér síðan braut á ferðamarkaðnum næsta sumar.

„Þar sem ég er nú hérna í Skagafirðinum þá mun ég náttúrulega nýta mér þessar kjöraðstæður á Reykjaströnd eins og sumir,“ segir hann en eins og menn vita tók Grettir Ásmundsson land þar þegar hann var eldfæralaus úti í Drangey.

Á Reykjaströnd er síðan Grettislaug þar sem gott er að ylja sér eftir volkið. Enn fremur segir hann að hann muni bjóða upp á sjósundferðir víðar á landinu.

Benedikt er að vinna að mastersverkefni um áhrif sjósunds á heilsuna og segir það verkefni krefjast ýmissa tilrauna og rannsókna. Eins er hann að undirbúa sig fyrir mikla sjósundferð sem hann vill reyndar ekki segja meira um á þessu stigi málsins. Í þeim tilgangi synti hann um síðustu helgi frá Hegranesi til Sauðárkróks sem er tæplega fimm og hálfs kílómetra sund.

Hann segist vongóður um að þessari nýlundu verði vel tekið. Leyfið sem Benedikt fékk er það 500. sem Ferðamálastofa gefur út en þessar leyfisveitingar hafa verið á könnu Ferðamálastofu frá árinu 2006.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×