Innlent

Fallegri undirgöng í vændum

Úðabrúsar, eins og sá sem liggur í þessum polli, eru títt notaðir til þess að krota á veggi.
Úðabrúsar, eins og sá sem liggur í þessum polli, eru títt notaðir til þess að krota á veggi. Fréttablaðið/anton
Veggjakrotarar voru ekki lengi að setja mark sitt á nýmálaða veggi í göngunum undir Miklubraut við Lönguhlíð. Stutt er síðan göngin voru máluð.

„Þessi göng eru ásetin og vinsæl hjá þeim sem hafa verið í veggjakroti. Þau eru nokkuð fjölfarin og við höfum viljað koma á betra ástandi þarna. Nú vinnum við að því,“ segir Guðmundur Vignir Óskarsson, verkefnastjóri hjá Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar.

„Það var dregið mikið úr fjármagni við hreinsun eftir hrunið. Það fól í sér að ekki var hreinsað jafn oft í þessum undirgöngum og áður. Það hefur komið niður á útliti,“ segir Guðmundur.

Ástandið stendur þó til bóta.

„Nú er verið að vinna að því að koma undirgöngunum í lag aftur og halda þeim við með sómasamlegum hætti. Við erum bara að vinna niður hala í því. En það er krafa borgarinnar að undirgöngin séu hrein.“

Guðmundur segir mismunandi hversu lengi veggir haldist hreinir af kroti.

„Ef þetta er málað reglulega dregur verulega úr veggjakroti og göngin geta haldist mjög lengi hrein.“- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×