Hljómsveitin Tilbury ætlar að fagna útgáfu fyrstu plötu sinnar með veglegum tónleikum í Iðnó á fimmtudagskvöld.
Þar verður öllu til tjaldað; platan verður leikin í heild sinni í fyrsta sinn, valinkunnir tónlistarmenn munu aðstoða við tónlistarflutninginn, nýstirnin í Kiriyama Family munu sjá um upphitun og svo verður frumsýnt splúnkunýtt myndband við næstu smáskífu Tilbury, "Drama", sem unnið var af Helga Jóhannssyni og Atla Viðari Þorsteinssyni.
Hljómsveitin Tilbury kom inn á sjónarsviðið fyrir um fjórum mánuðum síðan þegar smáskífa þeirra "Tenderloin" hóf að flakka um internetið. Mánuði síðar kom fyrsta breiðskífa sveitarinnar út, Exorcise, sem fékk meðal annars fjórar stjörnur hjá gagnrýnanda Fréttablaðsins og Vísis.
Exorcise hefur nú setið efst í margar vikur samfleytt á plötulista Gogoyoko og jafnframt á topp tíu lista yfir mest seldu plötur á landinu og lagið "Tenderloin" hefur setið ofarlega á vinsældarlistum útvarpsstöðva síðan það kom út.
Dagskráin hefst stundvíslega klukkan 21 og miðaverð er 1800 krónur. Miða má nálgast hér á miði.is.
