Innlent

Ósáttur við evru-sinna í nefnd um framtíð krónunnar

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Formaður Framsóknarflokksins furðar sig á að þremur þekktum evrusinnum hafi verið bætt inn í þverpólitíska nefnd sem átti að fjalla um framtíð krónunnar og skipan gjaldmiðlamála á Íslandi. Þar með sé niðurstaða nefndarinnar gefin.

Krónan er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá þjóðinni um þessar mundir og ýmsar hugmyndir ræddar um hvað megi gera til að koma jafnvægi á gjaldmiðilsmálin. Nokkuð hefur verið rætt um hugsanlega upptöku norskrar krónu og jafnvel kanadadollars en fram hefur komið að sú hugmynd hafi borið á góma á fundum Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, með seðlabankastjóra Kanada í vikunni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fagnar því að stjórnarflokkar ræði fleiri kosti en upptöku evru en er ósáttur við hvernig skipað var í nefnd sem átti að hleypa að fulltrúum allra flokka til að ræða þessi mál af dýpt. Nefndin var skipuð af efnahags- og viðskiptaráðherra og heitir formlega Samráðsnefnd um mótun peninga- og gengisstefnu. Sigmundur Davíð fullyrðir að það hafi dregist treglega að koma nefndinn af stað. Nú sé hún hinsvegar komin á laggirnar. Sigmundur óttast þó að niðurstaðan sé gefin:

„Það er svolítið skrýtið að ráðherra skuli bæta við þremur evru-sinnum, og þá er niðurstaðan gefin," segir Sigmundur Davíð og vísar þá meðal annars í formann ASÍ, Gylfa Arnbjörnsson og Vilhjálm Egilsson, formann Samtaka atvinnulífsins.

Nefndina skipa Helga Jónsdóttir ráðuneytisstjóri í efnahagsráðuneytinu, sem er formaður, Árni Þór Sigurðsson frá Vinstri grænum, Illugi Gunnarsson frá Sjálfstæðisflokki, Freyr Hermannsson frá Framsóknarflokki, Lilja Mósesdóttir tilnefnd af Hreyfingunni, Þórunn Sveinbjarnardóttir Samfylkingu, auk Vilhjálms frá Samtökum atvinnulífsins og Gylfa frá ASÍ.

Valdimar Halldórsson aðstoðarmaður ráðherra er starfsmaður nefndarinnar sem á að skila ráðherra greinargerð í vor. Eftir það leggur ráðherra mat á það hvort nefndin starfi áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×