Innlent

Lítið um rottur í Reykjavík - eiginlega viðburður að sjá þær

Kettir þurfa að vera ansi hugaðir ætli þeir að leggja til atlögu við miðbæjarrottur, en þær geta verið ansi illskeyttar að sögn Guðmundar Björnssonar hjá meindýravörnum Reykjavíkurborgar.
Kettir þurfa að vera ansi hugaðir ætli þeir að leggja til atlögu við miðbæjarrottur, en þær geta verið ansi illskeyttar að sögn Guðmundar Björnssonar hjá meindýravörnum Reykjavíkurborgar.
„Það er nú óhætt að segja að rottur í Reykjavík séu ekki stórvandamál, það er eiginlega orðinn viðburður að fólk sjái þær," segir Guðmundur Björnsson, rekstrarstjóri meindýravarna Reykjavíkurborgar, en íbúi á Grettisgötunni náði magnaðri mynd af rottu í gluggakistu á Grettisgötunni og ketti sem fylgdist með henni.

Kötturinn hafði þó ekki hugrekki til þess að ráðast á rottuna. Það kemur Guðmundi ekkert á óvart, hann segir að það þurfi ansi hugaðann og vanann kött til þess að ráðast á fullorðna rottu, „þær geta verið heldur illskeyttar," bætir hann við.

Guðmundur segir að tilkynningum um rottur fari í raun fækkandi. Þannig fái meindýravarnir Reykjavíkurborgar tæplega eina tilkynningu á dag um rottu sem hafi sést í íbúabyggð.

„Tilkynningarnar náðu varla 300 á síðasta ári," bætir hann við en að öllu jöfnu eru tilkynningarnar á bilinu 300 til 400 á ári. „Þannig það er óhætt að segja að við séum alveg laus við eitthvað sem heitir rottufaraldur," segir Guðmundur.

Hann segir rotturnar frekar leita upp á vorin og sumrin, „þær vilja kannski njóta sólarinnar líka. Annars koma þær oftast upp vegna bilunar í lögnum," útskýrir Guðmundur sem hvetur borgarbúa til þess að hringja hiklaust í meindýravarnir Reykjavíkurborgar verði þeir varir við rottur.

„Það skiptir miklu máli fyrir okkur."

Spurður um stærðina á rottunum í borginni segir hann að þær séu með tuttugu sentímetra langan búk, og skottið sé annað eins á lengd. „Þannig það er eiginlega ekkert sem heitir risarotta hér á Íslandi," segir Guðmundur.

Spurður hversu þungar þær séu, svarar Guðmundur því til að hann viti það ekki. „Ég hef ekki lagt í að vigta þær," svarar hann að lokum.


Tengdar fréttir

Stærðar rotta skelfdi kött

"Hún var allavega svo stór að kötturinn var skíthræddur við hana," sagði íbúi á Grettisgötunni sem rakst á stærðar rottu fyrir framan heimili nágranna síns í Reykjavík á frídag verkamanna í síðustu viku. Rottan var sprellifandi og ekki frýnileg að sjá. Kötturinn sem sést á myndinni gerði sig líklegan nokkrum sinnum til þess að gera atlögu að rottunni en lét aldrei verða að því. Eftir nokkra stund lét rottan sig hverfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×