Innlent

Hertu viðurlög við alvarlegum spjöllum

Guðmundur varð var við talsverðar skemmdir vegna utanvegaaksturs á Úlfarsfelli á sunnudag. Mynd/guðmundur Gunnarsson
Guðmundur varð var við talsverðar skemmdir vegna utanvegaaksturs á Úlfarsfelli á sunnudag. Mynd/guðmundur Gunnarsson
Alþingi hefur samþykkt að herða verulega viðurlög við spjöllum á náttúru Íslands. Opna lagabreytingarnar meðal annars á það að ökutæki verði gerð upptæk hafi þau verið notuð af eiganda þeirra við náttúruspjöll.

Lagabreytingarnar munu taka gildi 1. maí næstkomandi en þær voru samþykktar samhljóða á Alþingi í lok síðasta mánaðar með 25 atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki.

Kveða breytingarnar á um að þeir sem gerist sekir um alvarleg spjöll á náttúru landsins skuli sæta sektum, að lágmarki 350.000 krónur, eða fangelsi allt að fjórum árum. Lágmarkssektarfjárhæðin skal svo taka mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Þá verður hinu opinbera heimilt að gera ökutæki brotamanns upptækt með dómi hafi ökutækið verið notað við framningu brots gegn ákvæðum laga um náttúruvernd.

Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu kemur fram að löggæslu- og umhverfisyfirvöld hafi séð ástæðu til þess að efna til átaksverkefna og starfrækja starfshópa með það að markmiði að vinna gegn utanvegaakstri. Þá hafi það komið fram í máli þeirra sem til þekkja að refsingar við utanvegaakstri séu of vægar.

Reglulega berast fregnir af utanvegaakstri sem veldur spjöllum á náttúru landsins. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, varð var við slíkt dæmi á Úlfarsfelli á sunnudag.

„Það eiginlega gekk fram af mér í gær [á sunnudag] þegar ég sá þennan tiltekna bíl standa við hlið drullusvaðs eins og myndin sýnir,“ segir Guðmundur og heldur áfram: „Ég er einn af fjölmörgum sem nota Úlfarsfellið sem líkamsræktarstöð. Ég labba þarna mjög oft upp og mér stundum blöskrar að sjá hvernig fjórhjóla-, vélhjóla- og jeppamenn haga sér á þessu svæði.“

Guðmundur segir að vitaskuld haldi sig flestir á þeim leiðum sem á svæðinu sé að finna en það komi þó fyrir að menn séu að þvælast utan leiða. „Þá er voðinn vís, sérstaklega á þessum árstíma þegar frost er að fara úr jörðu og bílar svoleiðis sökkva ofan í jörðina.“

Guðmundur fjallaði um reynslu sína af utanvegaakstri á Úlfarsfelli á vefsíðu sinni á sunnudag og vakti umfjöllunin nokkra athygli í netheimum. Sendi Ferðaklúbburinn 4x4 frá sér fréttatilkynningu í tilefni umfjöllunarinnar þar sem athygli jeppaeigenda var vakin á því að fara sérstaklega varlega á meðan frost sé að fara úr jörðu. Þá væri mikilvægt að virða í einu og öllu bann við hvers konar akstri utan vega. Loks var tekið fram í tilkynningu klúbbsins að sá bílstjóri sem Guðmundur fjallaði um væri ekki félagsmaður í klúbbnum.magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×