Innlent

Grétar Mar: Nýtt kvótafrumvarp verra en núgildandi lög

Höskuldur Kári Schram skrifar
Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins.
Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins.
Kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar er verra en núverandi lög og nær hvorki að tryggja nýliðun innan greinarinnar né jafnræði. Þetta segir fyrrverandi þingmaður. Með frumvarpinu sé verið að afhenda útgerðarmönnum fiskiauðlinda á silfurfati.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, kynnti í gær frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Útgerðarmenn hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og þá helst hækkun veiðigjalds og telja að það muni leiða til fjöldagjaldþrota innan greinarinnar.

Andstæðingar núverandi kvótakerfis eru líka óánægðir með frumvarp ríkisstjórnarinnar. Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, segir frumvarpið vera meingallað.

„Þetta er ekki neitt spor í rétta átt nema en öfugt. Þetta er verra en núverandi lög, sem við búum við og útaf því að þetta til 40 ára, en ekki eins árs í einu eins og núverandi lög segja, það væri hægt að breyta núverandi lögum á skynsamana hátt en ekki afhenda sérhagsmunahópum þessa auðlind þjóðarinnar til 40 ára og það er alveg útúr kortinu að mínu mati," segir Grétar Mar Jónsson.

Frumvarpið felur í sér að hluti aflans er settur í leigupotta á vegum ríkisins en strax fara um tuttugu þúsund þorskígildistonn í þá potta. Grétar segir að þetta sé alltof lítið til að tryggja nýliðun og gagnrýnir að núverandi handhafar kvótans fái að bjóða í þessar veiðiheimildir.

„Þetta uppfyllir ekki mannréttindaálit Sameinuðu þjóðanna að allir eiga að standa jafnir. Þeir fá kvóta frá ríkinu á átta krónur plús og eitthvað sem heitir afkomutengt, en þeir geta leigt það á 320 krónur kílóið, sem þeir fá fyrir átta krónur. Þó þeir þyrftu að borga helmingi hærra verð, þó það færi upp í 15 krónur, geta þeir leigt 25% af veiðiheimildum sínum á 320 krónur. þetta er ekkert sem heitir jafnrétti," segir Grétar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×