Leikstjórinn Ágúst Guðmundsson hefur fengið vilyrði um framleiðslustyrk fyrir hátt í sjötíu milljónir króna fyrir kvikmyndina Ófeigur gengur aftur.
„Þetta er skilyrt því að það takist að klára fjármögnun á verkinu. Ég er að bíða eftir niðurstöðu frá erlendum sjóði,“ segir Ágúst. Hann getur því ekki sagt til um hvort tökur á myndinni geta hafist á þessu ári eða ekki.
„Þetta er frekar gamansöm mynd um fólk í miðbæ Reykjavíkur sem býr við draugagang í húsinu sínu. Tvær af persónunum eru framliðnar,“ bætir hann við um Ófeig gengur aftur.
Átta ár eru liðin frá síðustu mynd Ágústar, Stuðmannamyndinni Í takt við tímann. Þar áður sendi hann frá sér Mávahlátur. Leikstjórinn er með fleiri verkefni í bígerð. „Ég er líka að vinna að mynd sem verður tekin á Grænlandi vonandi á næsta ári,“ segir hann. Sú mynd gerist á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar en hefur enn ekki fengið nafn. -fb
Gamansöm draugamynd í bígerð
