Innlent

Hafa þurft að bjarga flestum sem ætla yfir jökulinn

Mynd/Einar Eysteinsson
Björgunarsveitir hafa þurft að sækja flesta þá sem ætla yfir Vatnajökul í vetur enda tíðin verið óvenju slæm. Belgísku ferðamennirnir tveir sem var bjargað um helgina eru brattir, og ætla að ferðast áfram um landið næstu daga.

Gríðarleg aukning hefur orðið á þeim fjölda erlendra ferðamanna sem þurfa á aðstoð björgunarsveita í vetur. Útköllin skipta hundruðum síðan í desembermánuði.

Slysavarnafélagið Landsbjörg rekur þjónustu sem kallast tilkynningaþjónusta ferðamanna. Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, telur það hafa skipt sköpum að Belgarnir nýttu sér hana.

Þannig hafði Landsbjörg farið yfir búnað þeirra auk þess sem þeir skildu eftir ferðaplan. „Þeir leigðu hjá okkur neyðarsenda sem ég held að hafi bjargað þeim. þeir gátu látið vita af sér og voru sóttir í kjölfarið," segir Ólöf.

Hvasst var á jöklinum og mikill kuldi, og reyndi það mjög á björgunarsveitarmenn. „Það voru tveir sem fengu kalsár í andlit, annar aðeins meira en hinn, þeir eru enn bólgnir og eru að jafna sig en þeir verða góðir. Þeir eru bara sprækir og gott í þeim hljóðið"

Og Belgarnir eru þakklátir fyrir björgunina. Ólöf segist hafa heyrt í þeim fyrr í dag og eru þeir í „fínu standi," eins og hún orðar það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×