Innlent

Björguðu tveimur hrossum: Voru búin að éta töglin hvort af öðru

Hestar úti í vondu veðri. Mynd tengist frétt ekki beint.
Hestar úti í vondu veðri. Mynd tengist frétt ekki beint. Mynd/Valli
„Þau eru komin upp á kerruna og við erum búnir að gefa þeim hey," segir Þorsteinn Friðriksson, formaður björgunarsveitarinnar Ægis á Grenivík, sem lagði af stað í morgun í Gæsadal, sem liggur norður frá Víkurskraði, til að sækja tvö hross sem voru þar illa haldin.

Hrossin tvö hafa verið ein í margar vikur, í einn til tvo mánuði, án matar og verulega illa haldin. Mikill snjór er á svæðinu og því hafa þau ekki getað étið neitt. Þorsteinn fór í morgun ásamt tveimur dýralæknum, fulltrúa eiganda og þremur öðrum frá björgunarsveitinni. Sveitin var á snjótroðara sem búið var að festa kerru í. „Við erum búnir að bólsta kerruna að innan með dýnum, svo það fer ágætlega um þau."

Þegar þeir komu á svæðið nú fyrir stundu voru hrossin búin að éta taglið af hvoru öðru. „Þau voru alveg sársvöng og hafa örugglega verið búin að éta skít því það var enginn skítur þarna á þessum fimm fermetrum sem þau voru á," segir hann.

Þorsteinn býst við að sveitin verði komin niður á Víkurskarð eftir tvo til þrjá klukkutíma. Þar verður hrossunum komið í húsaskjól og gefið nóg af heyi - enda sársvöng eftir margar vikur án matar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×