Innlent

Fær ekki bætur eftir að hafa misst tvær tennur í rennibraut

Sundlaug Akureyrar
Sundlaug Akureyrar
Akureyrarbær var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag af skaðabótakröfu föðurs tólf ára gamallar stúlku sem slasaðist í vatnsrennibraut í sundlaug Akureyrar árið 2007.

Í september árið árið 2007 var stúlkan, þá átta ára gömul, stödd í Sundlaug Akureyrar ásamt foreldrum sínum. Stúlkan fór í stóra vatnsrennibraut sem er við sundlaugina en fram kemur í dómnum að rennibrautin sé yfirbyggð alla leið og þakið úr hörðu plastefni, sem hleypi birtu inn í rennibrautina. „Ákveðinn hluti leiðarinnar hafi þó verið myrkvaður sökum þess að rennibrautin liggur að hluta til í gegnum þykkan trjágróður."

Enginn var á undan stúlkunni í tröppunum upp að rennibrautinni og engir aðrir staddir efst í rennibrautinni þegar stúlkan kom þangað. Efst, við upphaf rennibrautarinnar, hafi verið umferðarljós sem áttu að gefa næsta farþega til kynna hvort óhætt væri að leggja af stað niður. Um var að ræða tímastillt ljóst, ekki tengd skynjurum.

Þegar stúlkan var komin efst upp í stigann við rennibrautina logaði grænt ljós til merkis um að óhætt væri að fara af stað. Stúlkan kveðst ekki hafa treyst ljósunum og því ákveðið að bíða í nokkra stund og sjá hvort einhver væri í rennibrautinni ennþá eða rétt ókominn út úr henni.

Eftir að hafa beðið í nokkra stund án þess að sjá einhvern inni í rennibrautinni, eða sjá nokkurn koma út úr rennibrautinni, kveðst stúlkan loks hafa ákveðið að fara af stað niður, enda hafi þá logað grænt ljós.

Þegar stúlkan var komin nokkuð áleiðis og yfir í þann hluta rennibrautarinnar sem er myrkvaður, hafi komið í ljós að þar var drengur sem hafði stöðvað för sína í miðri rennibrautinni og setið þar einhvern tíma.

Stúlkan kveðst hafa skollið harkalega aftan á drenginn og við höggið misst tvær framtennur. Hún hafi auk þess fengið talsvert höfuðhögg.

Stúlkan var flutt á bráðamóttöku Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eftir slysið en var vísað þaðan til tannlæknis.

Vinnueftirlitið skoðaði svo aðstæður og kemur fram í úttekt frá þeim í apríl 2009 að umferðarljósabúnaður rennibrautarinnar hefði verið breytt eftir slys stefnanda. Var þá búið að koma fyrir nemum sem tengdust ljósabúnaðinum.

Akureyrarbær mótmælti því fyrir dómi að slysið megi rekja til þess að öryggisbúnaðurinn hafi verið vanbúinn og til þess fallinn að skerða öryggi notenda rennibrautarinnar. Því er haldið fram að slysið megi alfarið rekja til óhappatilviljunar og/eða saknæmrar háttsemi drengsins sem stúlkan rakst á í rennibrautinni.

Dómarinn féllst á þau rök og segir meðal annars í niðurstöðu dómara: „Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hönnun eða gerð umræddrar rennibrautar hafi verið í ósamræmi við þágildandi staðla. Ekki hefur verið sýnt fram á að starfsmenn stefnda hafi með saknæmum eða ólögmætum hætti átt einhvern þátt í þeirri atburðarás er olli slysinu. Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að sundlaugarvörður hafi verið á svæðinu en hins vegar var sundlaugarvörður ekki til staðar við rennibrautina í umrætt sinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×