Innlent

Meniga slær um sig á finnskum fjármálamarkaði

Íslenski fjármálahugbúnaðurinn Meniga er nú aðgengilegur í netbönkum yfir þrjátíu finnskra sparisjóða. Framkvæmdastjóri Meniga vonast til þess að notendur verði komnir yfir þrjár milljónir í tíu löndum á næstu níu mánuðum.

Yfir tuttugu prósent íslenskra heimila nota Meniga til að fylgjast með heimilisfjármálum sínum á netinu, hugbúnaðurinn hefur verið í mikilli útrás á þessu ári og er hann nú aðgengilegur viðskiptavinum ScandiaBanken í Noregi og Svíþjóð auk þess sem finnskir notendur bættust við í þessarri viku.

„Við vorum að tilkynna í gær að nú er innleiðingarverkefni lokið með sparisjóðasambandi Finnlands þar sem nær allir finnskir sparisjóðir yfir 30 að tölu eiga aðild að, þannig heimilisfjármálahugbúnaðurinn Meniga er nú aðgengilegur í netbanka þeirra undir þeirra vörumerki og þeir fóru í mikla auglýsingarherferð í vikunni til að kynna þjónustuna sem hefur farið mjög vel af stað hjá þeim," segir Georg Lúðvíksson framkvæmdastjóri Meniga.

Þar með bætast tvö hundruð þúsund finnskir notendur við og hafa því nú um milljón netbankanotendur aðgang að hugbúnaðinum í þremur löndum.

„En við gerum annars ráð fyrir að miðað við önnur innleiðingarverkefni sem eru í gangi og við munum tilkynna um á næsti 6-9 mánuðum muni hugbúnaðurinn ná til 3-4 milljóna notenda um mitt næsta ár í 8-10 löndum."

Hann segir fyrirtækið hafa tvöfaldast að stærð undanfarið ár og muni líklegast tvöfalda starfsmannafjölda sinn aftur á komandi misserum.

„Við sjáum fram á að vera í rauninni að komast út úr sprota stigi og komast á það stig að vera í mun stöðugri og öflugri rekstur," segir Georg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×