Innlent

Allsherjarverkfall lamar Belgíu

Mynd/AP
Nánast allt athafnalíf liggur nú niðri í Belgíu vegna allsherjarverkfalls sem hófst þar í gærkvöldi. Aðgerðirnar hafa áhrif á fund leiðtoga Evrópusambandins sem haldinn verður í höfuðborginni síðdegis.

Þrjú stærstu verkalýðsfélög landsins standa fyrir verkfallinu og nær það bæði til opinberra starfsmanna og þeirra sem vinna í einkageiranum. Með þessu mótmæla Belgar fyrirhuguðum niðurskurði í ríkisútgjöldum en stjórnvöld þar í landi áætla að ná fram 12 milljarða evra niðurskurði á þessu ári.

Opinberar samgöngur eru lamaðar og hafa þær áhrif á samgöngur nærliggjandi landa þar sem ferðum háhraðalesta, á borð við Eurostar sem gengur á milli Lundúna og Parísar með viðkomu í Brussel, hefur verið aflýst.

Útlit er fyrir að ekkert flug verði um Charleroi flugvöll í suðurhluta höfuðborgarinnar en þangað flýgur lággjaldaflugfélagið Ryanair meðal annarra. Alþjóðlegi flugvöllurinn í Brussel virðist þó ekki ætla að verða fyrir barðinu á aðgerðunum en nokkur flugfélög hafa þó ákveðið að beina flugferðum sínum til nálægra landa.

Þá er fjöldi belgískra skóla lokaður í dag og hið sama á við verslanir.

Leiðtogar Evrópusambandsins hittast í Brussel í dag þar sem þeir ræða meðal annars skuldavanda Grikkja, fjárlög ríkjanna, atvinnuleysi og hagvöxt. Verkfallið setur án efa strik í reikning leiðtoganna en þeir sem hann sitja voru beðnir um að mæta klukkan hálf sex í morgun þrátt fyrir að fundurinn hefjist ekki fyrr en klukkan eitt í dag. Þá verður belgíski flugherinn fenginn til að aðstoða fundarmenn við að komst frá borginni.

Það er engin tilviljun að boðað hafi verið til verkfalls á fundardegi leiðtoganna en Belgar eru ósáttir við þær kröfur sem Evrópusambandið setti belgískum stjórnvöld um niðurskurð.

Tæp tuttugu ár eru liðin frá því að Belgar fóru síðast í allsherjarverkfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×