Innlent

Hugmyndir um skipulag Öskjuhlíðar streyma inn

BBI skrifar
Hugmyndasamkeppnin er gleðiverkefni.
Hugmyndasamkeppnin er gleðiverkefni. Mynd/Teitur
Í sumar stendur yfir hugmyndasamkeppni um nýtingu Öskjuhlíðar og eru tillögur byrjaðar að streyma inn. Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs hjá Reykjavíkurborg, segir að fólk þurfi ekki að vera landslagsarkitekt eða sérmenntað til að taka þátt.

„Við erum bara að kalla eftir öllu sem venjulegu fólki dettur í hug," segir hún og útskýrir að hugmyndinar þurfi ekki að vera umfangsmiklar. Ef einhver hefur frábæra hugmynd sem auðvelt er að framkvæma er nóg að skrifa um það örfáar línur og senda inn. Ekki er gert ráð fyrir að þátttakendur þurfi að setja fram heildarsýn fyrir allt svæðið.

Samkeppnin sem nú er í gangi er fyrri samkeppnin af tveimur. „Það verða náttúrlega valdir vinningshafar og reynt að framkvæma tillögurnar en svo verður það besta úr þessari samkeppni notað í fóður í samkeppni meðal fagmanna sem fer fram í vetur," segir Ólöf. Þannig verða hugmyndirnar notaðar þegar sett verður fram heildarsýn fyrir svæðið. Stefnan er sú að skapa með þessum tveimur samkeppnum skýra framtíðarsýn um hvernig Öskjuhlíðin eigi að vera.

„Það er svo margt sem er hægt að gera betur og við viljum bara fá allar hugmyndir," segir Ólöf. „Þetta er svona gleðiverkefni."

Tillögum má skila á veffangið oskjuhlid@reykjavik.is eða senda tillögur til Reykjavíkurborgar merktar "Öskjuhlíð - hugmyndasamkeppni" Reykjavíkurborg, Skipulags- og byggingarsvið, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík. Tillögur þurfa að berast fyrir 1. september. 10 tillögur munu svo hljóta viðurkenningu og eru 750.000 krónur í vinningsfé.

Hér má finna nánari upplýsingar um samkeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×