Innlent

Sumaratvinnuátak fyrir háskólanemendur

Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingarsjóðs mætti á fund á vegum Stúdentaráðs Háskóla Íslands á Háskólatorgi miðvikudaginn 21. mars sem miðaður var að atvinnutækifærum námsmanna í sumar. „Þar tilkynnti hann að Velferðarráðherra hafði samþykkt að ráðist verði í sumaratvinnuátak sérmiðað að námsmönnum," segir í tilkynningu frá Stúdentaráði. Átakið byggir á samþykkt stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá því í síðustu viku um að leggja til tæpar 280 m. kr. til sköpunar starfa gegn rúmlega 100 m. kr. mótframlagi ríkissjóðs.

„Samkomulag er innan ríkiksstjórnarinnar um málið. Gert er ráð fyrir að ríflega 900 ráðningar verði á grundvelli átaksins innan stjórnsýslunnar og hjá sveitarfélögum nú í sumar.

Það að tæplega 1.000 námsmenn fái tækifæri til að vinna að skapandi störfum er afar mikilvægt, sérstaklega fyrir háskólanema sem verða ráðnir í starfsþjálfun og fá þannig möguleika til að yfirfæra faglega þekkingu sína í raunhæf úrlausnarefni á sínu fræðasviði."

„Verkefnið er hluti af nýrri sýn Atvinnuleysistryggingasjóðs um ráðstöfun almannafjár. Átakið var sett á fót þegar námsmenn misstu rétt til atvinnuleysisbóta milli anna, en við trúum því að þeim fjármunum sem áður var varið til greiðslu bóta sé nú betur varið til að skapa námsmönnum störf frekar en að greiða þeim bætur fyrir að vinna ekki. Slíkt er bæði námsmönnum og samfélaginu til hagsbóta. Við hlökkum til samstarfsins við námsmenn sem og til samstarfsins við SHÍ," Sagði Runólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×