Innlent

Hrefna Sætran segir fyrrverandi starfsmenn stela uppskriftum

Mynd/Stefán
Hrefna Rós Sætran veitingamaður biðlar til kollega sinna um að kynna sér vel hvern þeir ráða í vinnu. Hún segist tvívegis hafa lent í því að starfsfólk sem hún hefur þurft að láta fara, vegna lélegra vinnubragða og slælegrar mætingar, hafi stolið frá henni uppskriftum. Þetta fólk hafi síðan verið ráðið annars staðar þar sem það hafi boðið upp á nákvæmlega sömu rétti og Hrefna hafi haft á boðstólum.

„Nákvæmlega copy/paste frá a-ö," segir Hrefna Rós í pistli á vefsíðunni freisting.is. „Það eru auðvitað engin lög um að þetta megi ekki en þetta er óheiðarlegt. Við erum búin að leggja mjög mikla vinnu í að gera rétti sem við erum ánægð með og viljum bara halda þeim hjá okkur."

Hrefna segir það einnig lélegt „fyrir þann sem búinn er að ráða manneskju í vinnu, borgar kannski himinhá laun og svo er manneskjan ekki að vinna fyrir þeim, heldur bara stela frá öðrum. Við búum á litlu landi og ef þetta viðgengst endar þetta þá ekki bara á því að allir eru að sörvera svipaðan mat?"

Hún telur því mikilvægt að fólk leiti meðmæla hjá fyrrverandi atvinnurekendum. „Það er vöntun á fólki í bransanum og ég skil að fólk hoppi á það að ráða einstaklinga sem segjast hafa unnið á flottum veitingastöðum, en hversu mikið er rétt í því sem fólkið segir sjálft frá?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×