Þeir Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason munu ekki þurfa að sitja af sér refsingu vegna Vafningsdómsins í fangelsi. Í staðinn munu þeir geta tekið út refsinguna með samfélagsþjónustu. Þeir voru í dag dæmdir í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna. Þrír mánuðir eru því óskilorðsbundir hjá hvorum þeirra.
Í 28. grein laga um fullnustu refsinga kemur fram að þegar fangelsisrefsing er fullnustuð með samfélagsþjónustu jafngildir 40 klukkustunda samfélagsþjónusta eins mánaðar fangelsisrefsingu. Hafi gæsluvarðhald komið til frádráttar fangelsisrefsingu skuli taka tillit til þess við útreikning á fjölda klukkustunda. Hvorki Guðmundur né Lárus sættu gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn málsins stóð. Þeir munu því báðir þurfa að taka út 120 klukkustundir í samfélagsvinnu. Það samsvarar þremur fimm daga vinnuvikum.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að menn geti dreift slíkri vinnu yfir á lengra tímabil. Þeir geti því til dæmis stundað vinnu á meðan samfélagsþjónustan fer fram.