Innlent

Íbúar á Eyrarbakka skelkaðir vegna strokufanga

„Þetta eru harðsnúnir menn sem snúa sér yfir þetta eins og ekkert sé," segir Skúli Steinsson, íbúi á Eyrarbakka, sem gengdi starfi fangavarðar í 23 ár. Hann segir að sér þyki hræðilegt að vita til þess að menn virðist geta klifrað yfir varnargirðingarnar ef þeim sýnist svo, en strokufangans, Matthíasar Mána Erlingssonar, var leitað í umhverfi Litla-Hrauns í dag.



Íbúar við Eyrarbakka voru sumir skelkaðir við þessa umfangsmiklu leit og voru til dæmis fleiri börn sótt í skólann en venjulega í dag. Íbúar kalla eftir öflugri girðingu eins og Skúli kom inná hér á undan.



Um áttatíu manna lið leituðu strokufangans frá birtingu og fram í myrkur í dag. Leitin virðist þó ekki hafa skilað öðru en húfu hans. Samfangar hans segjast oft hafa heyrt hann ræða um flótta.



Fjölskiptað lið, sem samanstóð af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Selfossi, sérsveit ríkislögreglustjóra og fangaverðir, fínkembdu nágrenni fangelsisins með leitarhunda sér til aðstoðar.



Þá flaug þyrla Landhelgisgæslunnar yfir svæðið í leit að ummerkjum um Matthías Mána. Um 50 björgunarmenn voru einnig til aðstoðar en það mun vera í fyrsta sinn sem þeir aðstoða lögreglu við fangaleit.



Matthías Máni strauk af Litla-Hrauni á mánudag. Talið er að honum hafi tekist að klifra yfir girðingu á svæðinu. Hann er talinn varasamur en í september hlaut hann fimm ára fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að bana ungri stjúpmóður sinni. Samkvæmt dómi virðist hann hafa verið heltekinn af henni og samkvæmt heimildum fréttastofu mun hann margssinnis hafa talað um að ná sér niður á henni þegar honum tækist að flýja. Konunni hefur nú verið komið í skjól.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×