Tugþúsundir manna mótmælti í gær áformum stjórnvalda í Frakklandi að heimila hjónabönd samkynhneigðra og veita samkynhneigðum heimild til að ættleiða börn. Lögreglan segir að hið minnsta 70 þúsund hafi verið á götum Parísar, en einnig hafi verið mótmælt í borgunum Lyon, Toulouse og Marseille. Þarna hafi verið um að ræða kaþólikka og aðra stuðningsmenn hefðbundinna fjölskyldugilda, eins og það er orðað á fréttavef BBC.
Ríkisstjórnin í Frakklandi hefur þegar samþykkt frumvarp sem Francois Hollande, forseti Frakklands, lagði fram um aukin réttindi samkynhneigðra. Frumvarpið verður svo lagt fyrir þingið í janúar. Samkynhneigðir í Frakklandi hafa nú þegar fengið rétt til þess að ganga í staðfesta sambúð. Hollande hét því hins vegar í kosningabaráttunni að auka rétt þeirra enn frekar.
En það voru ekki bara andstæðingar aukinna réttinda samkynhneigðra sem létu sjá sig úti á götum í Frakklandi í gær. Þeir sem styðja aukin réttindi þeirra ákváðu líka að sýna stuðning sinn og þrömmuðu um götur. Svo mikill varð mannfjöldinn að lögreglan þurfti að skerast i leikinn.

