Erlent

Gráhærðu glæpagengin valda áhyggjum í Japan

Það sem kallast Gráhærðu glæpagengin í Japan eru vaxandi vandamál þar í landi en fáar skýringar finnast á þessu vandamáli.

Það er fólk á ellilífeyrisaldri eða 65 ára og eldi sem myndar gráhærðu glæpagengin en glæpatíðni meðal eldri borgara í Japan hefur farið stigvaxandi frá því um síðustu aldamót. Raunar hefur tíðnin tvöfaldast á þessu tímabili.

Það sem veldur sérstökum áhyggjum stjórnvalda er hve mikið er orðið um ofbeldisglæpi meðal þessara eldri borgara. Þannig fjölgaði ofbeldisglæpum um nærri 600% á síðasta áratug en þeir eru nú hátt í 3.000 talsins á ári. Að mestu eru þó um smávægileg afbrot hjá gráhærðu glæpagengjunum að ræða eins og búðarhnupl eða vasaþjófnaði. Slík afbrot eru um 70% af heildarfjöldanum.

Glæpatíðni af þessari stærðargráðu meðal eldri borgara finnst ekki hjá öðrum þjóðum. Japanir hafa sjálfir ekki skýringu á hreinu en eru með nokkrar rannsóknir í gangi. Hluti af skýringunni kann að liggja í því að eldri borgarar verða sífellt stærra hlutfall japönsku þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×